Fannst látin á McDonalds

Heimilislaus kona lá látin á McDonalds veitingastað í Hong Kong klukkutímum saman áður en tekið var eftir henni á laugardagsmorguninn. Hvorki starfsmenn né gestir staðarins áttuðu sig á því að konan væri látin en staðurinn er opinn allan sólarhringinn.

Fram kemur í frétt AFP að konan hafi verið á sextugsaldri. Lögreglan mætti á staðinn eftir að hún fékk tilkynningu um að liðið hefði yfir konu á veitingastaðnum. Konan var hins vegar úrskurðuð látin á staðnum 24 tímum eftir að hún kom fyrst inn á veitingastaðinn.

Ennfremur segir að konan hafi legið fram á eitt borðið. Hún hafi ekki hreyft legg né lið í sjö klukkustundir áður en gestir veitingastaðarins áttuðu sig á því að eitthvað væri að. Málið hefur vakið upp miklar umræður um stöðu heimilsilausra í borginni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert