Fjórir látnir í sögulegu úrhelli

Fjórir hið minnsta eru látnir í verstu flóðum sem orðið hafa í Suður-Karólínuríki í Bandaríkjunum í manna minnum. Fram kemur á fréttavef bandarísku sjónvarpstöðvarinnar ABC að ár og fljót hafi ekki verið vatnsmeiri áratugum saman.

Ríkisstjóri Suður-Karólínu, Nikki Haley, hefur hvatt íbúa ríkisins til þess að halda sig af vegum þar sem ár og fljót hafa flætt yfir þá og aðstæður breyttust í sífellu. Gríðarlegt úrhelli hefur verið í Suður-Karólínu undanfarna daga og sér ekki fyrir endann á því. Búist er við að rigningin haldi áfram í það minnsta næsta sólarhringinn.

Fólk hefur verið varað við því að vera á ferðinni í dag og á morgun. Bæði vegna þess að raflínur kunna að hafa fallið á vegi auk þess sem bakteríur kunni að vera í vatninu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert