Geta náð valdi á snjallsímum

Edward Snowden heldur áfram að upplýsa um eftirlitsgetu leyniþjónustustofnana.
Edward Snowden heldur áfram að upplýsa um eftirlitsgetu leyniþjónustustofnana. AFP

Bandaríski uppljóstrarinn Edward Snowden segir að eigendur snjallsíma geti lítið gert til að sporna við því að leyniþjónustur nái algerri stjórn á tækjunum. Hann segir að leyniþjónustur, t.d. sú breska, búi yfir þekkingu til að brjótast inn í símtækin án vitundar eigendanna.

Þetta sagði Snowden í viðtali hjá breska fréttaskýringarþættinum Panorama, sem er sýndur í breska ríkissjónvarpinu.

Hann sagði að breska leyniþjónustan GCHQ geti hlustað á samtöl og jafnvel látið símtækin taka myndir. 

Viðtalið var tekið upp í Moskvu þar sem Snowden hefur verið staddur í um tvö ár. Hann lagði á flótta árið 2013 eftir að hafa lekið miklu magni af viðkvæmum leyniupplýsingum sem sýndu fram á viðamiklar njósnir og fjarskipta- og neteftirlit Þjóðaröryggisstofnunar Bandaríkjanna (NSA).

Snowden gaf ekki í skyn að GCHQ og NSA hefðu áhuga á umfangsmiklu eftirliti með persónulegum samskipum almennra borgara. Hann sagði hins vegar að stofnanirnar hefðu fjárfest mikið í tæknibúnaði sem gerir þeim kleift að brjótast inn í snjallsíma. „Þeir vilja eiga símann þinn fremur en þig,“ segir hann í viðtalinu.

Hann bæti við að GCHQ hefði kallað tæknina eftir Strumpunum. Sem dæmi má nema voru nöfnin Forvitnistrumpur og Eftirlitsstrumpur notuð. Sá fyrrnefndi um búnað sem getur gert leyniþjónustunni kleift á hlusta á samtöl. Hinn um búnað sem gerir leyniþjónustunni kleift að staðsetja fólk með mikilli nákvæmni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert