Stoltenberg varaði Rússa við

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO.
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO. AFP

Framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO), Jens Stoltenberg, varaði rússnesk stjórnvöld í dag við því að auka á spennuna á milli Rússlands og ríkja bandalagsins.

Vísaði hann til atburða sem átt hafa sér stað á landamærum Tyrklands og Sýrlands síðustu daga þar sem rússnesk orrustuþota rauf lofthelgi Tyrkja og önnur óþekkt MiG-29 orrustuþota ógnaði tyrkneskum F-16 orrustuþotum. Tyrkland er aðili að NATO.

Rússar hófu nýverið loftárásir í Sýrlandi til að styðja við þarlend stjórnvöld í átökum við uppreisnarmenn í landinu. Stoltenberg ræddi við utanríkisráðherra Tyrkland, Feridun Sinirlioglu, í dag að ósk tyrkneskra stjórnvalda vegna atburðanna.

Stoltenberg sagði að fulltrúar aðildarríkja NATO ætluðu að funda síðar í dag til þess að ræða stöðuna. Hann sagðist hafa undirstrikað við utanríkisráðherra Tyrklands að NATO væri skuldbundið til þess að standa vörð um öryggi Tyrklands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert