Móðir árásarmannsins safnaði byssum

Mynd af Myspace síðu Chris Harper. Að sögn móður hans …
Mynd af Myspace síðu Chris Harper. Að sögn móður hans glímdi hann við andleg veikindi. Þrátt fyrir það voru hlaðnar byssur á heimili þeirra. AFP

Móðir manns sem myrti fjölmarga í skóla í Oregon-ríki Bandaríkjanna í síðustu viku, vissi að sonur hennar væri heillaður af byssum. Þar að auki lítur út fyrir að móðirin hafi hvatt manninn áfram í áhugamálinu ef tekið er mark á færslum konunnar á netinu.

AFP vitnar í grein The New York Times þar sem fram kemur að móðir mannsins, Laurel Harper, hafi komið sér upp birgðum af byssum á heimili sínu og mannsins. Á netinu skrifaði Harper, sem starfar sem hjúkrunarfræðingur, að þau hefðu bæði verið greind með Asperger- heilkenni.

Í The New York Times kemur einnig fram að Harper hafi tjáð sig á spjallborði um að sonur hennar hefði mikla þekkingu á skotvopnum og að hún væri með hlaðin vopn á heimilinu, þar á meðal skammbyssu og tvo sjálfvirka riffla.

„Enginn kemur við á mínu heimili óboðinn,“ á hún m.a. að hafa skrifað á spjallboðið.

Að sögn nágranna mæðginanna talaði hún einnig oft um að fara með son sinn á skotsvæði. Lögregla gerði fjórtán skotvopn upptæk í kjölfar árásarinnar. Þau voru öll í eigu árásarmannsins, Chris Harper. Sex vopnanna fundust í Umpqua-háskólanum í Roseburg, þar sem árásin fór fram. Restin fannst á heimili hans og móðurinnar.

Laurel Harper tjáði sig aðallega á Yahoo Answers-síðunni þar sem hún svaraði aðallega heilsufarsspurningum annarra notenda. Hún hefur verið notandi á síðunni síðustu tíu árin.

Hún ræddi einnig við samstarfsmenn sína um hversu erfitt það væri að ala son sinn upp ein. Hún talaði einnig um að reyna að koma honum inn á geðsjúkrahús í Kaliforníu áður en mæðginin fluttu til Oregon árið 2013.

„Hún sagði „Sonur minn er mér mikið vandamál“,“ sagði Alexis Jefferson sem starfaði með Laurel Harper á dvalarheimili árið 2010. Að sögn Jefferson sagði Laurel Harper að sonur hennar glímdi við andleg veikindi og gleymdi stundum að taka lyfin sín. Sagði hún það stórt vandamál.

Árásin í síðustu viku, þar sem árásarmaðurinn myrti níu áður en hann lést sjálfur, hefur skapað umræðu um byssulöggjöf í Bandaríkjunum. Barack Obama Bandaríkjaforseti lýsti yfir reiði og sorg og hvatti þingmenn til þess að skoða málið.

Á föstudaginn fór Obama til Oregon og hitti ættingja fórnarlambanna. Ekki voru allir ánægðir með heimsókn forsetans og líkað hefur verið rúmlega þúsund sinnum við  Facebook síðu þar sem heimsókninni er mótmælt.

David Jaques, sem gefur út dagblað íhaldsmanna í Roseburg, Roseburg Beacon, sagði í samtali við Fox News að Obama væri ekki velkominn. Hann sagði m.a. að forsetinn væri að reyna að gera harmleikinn pólitískan.

Fyrri fréttir mbl.is:

Átti 13 byssur og með leyfi fyrir öllum

Fleiri byssur, fleiri morð

Einfari og afar náinn móður sinni

Fórnarlambanna var minnst í Roseburg í gær.
Fórnarlambanna var minnst í Roseburg í gær. AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert