Raddirnar sögðu honum að myrða

Frá Lindingö í Svíþjóð. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Frá Lindingö í Svíþjóð. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Skjáskot/Google Maps

Hann myrti bólfélaga sinn, drakk blóð hans og málaði tákn nasista á vegginn með því. Þetta gerði hann af því að raddirnar í höfðinu á honum sögðu honum að gera það. Hann er 23 ára og bíður réttarhalda í málinu.

Kona hafði samband við neyðarlínuna í Svíþjóð eftir hádegi þann 28. júní í sumar. Hún hafði fundið vin sinn látinn í íbúð í Lindingö. Hafði hann verið stunginn til bana. Samdægurs gekk ungi maðurinn inn á lögreglustöð í Norrmalm ásamt móðurbróður sínum og viðurkenndi að hafa myrt manninn, sem var 35 ára, kvöldið áður.

Réttarhöld í málinu hefjast 19. október og greinir Aftonbladet frá málinu. 

Ungi maðurinn greindi frá því að hann hefði kynnst hinum látna nokkrum árum áður og höfðu þeir nokkrum sinnum stundað kynlíf. Frá þeim tíma höfðu þeir ekki haft samband hvor við annan. Sagði hann einnig frá andlegum veikindum sem hann hefur glímt við í mörg ár og segist hann meðal annars heyra raddir.

Árið 2012 fékk hann skyndilega áhuga á djöfladýrkun og sögðu raddirnar í höfðinu á honum að hann ætti að skera ketti á háls. Þá segist hann einnig hafa talið að leyniþjónusta fyrrum Sovétríkjanna væri að fylgjast með honum. Var hann viss um að starfsmenn leyniþjónustunnar hefðu komið sér fyrir í bílum sem hafði verið lagt í götunni þar sem hann bjó.

Fór hann smá saman að safna hnífum og öxum og gat hann að lokum ekki farið út í búð til að kaupa mjólk án þess „að búa sig undir stríð“ segir hann.

Árið 2015 voru raddirnar hærri en áður. Taldi hann að hann myndi deyja ef hann myrti ekki fyrrverandi bólfélaga sinn. Áður en hann framdi morðið skráði hann meðal annars „að skera á háls“, „lífstíðarfangelsi í Svíþjóð“ og „hvernig eyða skal gögnum af harða disknum“ inn í leitarvélar á internetinu.

Þann 27. júní í sumar lét hann til skarar skríða og hafði hníf meðferðis. Sló hann manninn í hnakkann og skar hann því næst á háls. Maðurinn var samtals yfirheyrður af lögreglu í fjórtán klukkustundir en þar viðurkenndi hann að hafa drukkið blóð mannsins. Henti hann hnífnum í ruslið en kom aftur daginn eftir, sótti hnífinn og henti honum í sjóinn. Því næst fór hann heim til móður sinnar og sagði henni frá gjörðum sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert