Sendi andstæðingum sínum sjálfsævisöguna

Hillary Clinton.
Hillary Clinton. AFP

Hillary Clinton, fyrrum utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sækist nú eftir því að verða forsetaframbjóðandi Demókrata í forsetakosningunum á næsta ári. Andstæðingar Clinton í Repúblikanaflokkinum ræddu fyrrum ráðherrann á síðustu kappræðum flokksins og sögðu margir hana ekki hafa komið miklu í verk sem utanríkisráðherra.

Clinton ákvað að svara þeirri gagnrýni með því að senda eintök af sjálfsævisögu sinni Hard Choices á þá fimmtán aðila sem tóku þátt í kappræðunum og berjast nú um að verða frambjóðendur Repúblikana. 

Hard Choices er hvorki meira né minna en 596 blaðsíður og segir frá árum Clinton sem utanríkisráðherra. Í síðustu viku voru bækurnar sendar út.

„Mér skilst að þú og aðrir sem berjast um að verða forsetaframbjóðendur flokksins, hafi efast um afrek mín í síðustu kappræðum ykkar. Þannig mér datt í hug að þið hefðuð gaman að því að lesa bókina mína, Hard Choices,“ stóð í bréfi Clinton til viðtakendana.

Hún bætti við að svo margir væru í framboði til þess að verða valdir af flokknum að „þeir gætu stofnað bókaklúbb.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert