Vissi um svindlbúnaðinn vorið 2014

AFP

Forstjóri Volkswagen í Bandaríkjunum, Michael Horn, hefur viðurkennt að hann hafi snemma á síðasta ári vitað um svindlhugbúnaðinn sem sýnir mun minni mengun frá útblæstri dísilvéla en reyndin sé. Búnaðinn er að finna í mörgum milljónum ökutækja framleiðands.

Horn segist hafa fengið upplýsingar um búnaðinn vorið 2014, að því er segir á vef BBC. Þetta kemur fram í skriflegum vitnisburði sem verður kynntur fyrir bandarískri þingnefnd á morgun, en nefndin hefur hafið rannsókn á málinu vestra. 

Horn segist hafa fengið þessar upplýsingar í eftir að rannsóknarniðurstöður háskóla í Vestur-Virginíu höfðu verið birtar. 

„Ég fékk þær upplýsingar að í regluverki Umhverfisverndarstofnunar Bandaríkjanna [EPA] sé kveðið á um ýmis viðurlög sé ekki farið eftir viðmiðum um útblástur og að stofnarnir gætu látið framkvæma próf, þar á meðal athugað með temprunarbúnað (e. defeat device),“ sagði hann. 

Horn segir einnig, að hann hefði fengið þær upplýsingar að verkfræðingar fyrirtækisins myndu vinna með stjórnvöldum að lausn málsins. 

Þá segir hann að það hafi ekki verið fyrr en 3. september á þessu ári að Volkswagen hafi greint bandarískum yfirvöldum frá svindlbúnaðinum sem er að finna í ökutækjum sem voru framleidd á milli 2009 og 2015. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert