Græddi 11,4 milljónir á kannabissölu á dag

Philippe Vouland lögmaður Nordine Achouri var ósáttur við niðurstöðu dómsins …
Philippe Vouland lögmaður Nordine Achouri var ósáttur við niðurstöðu dómsins í gær. AFP

Einn helsti fíkniefnasali Frakklands, sem sérhæfir sig í sölu á kannabis, var í gær dæmdur í átta ára fangelsi í Marseille. Tekjur hans af sölu kannabis námu 80 þúsund evrum, 11,4 milljónum króna, á dag. Nordine Achouri, 33 ára, rak fíkniefnahring sinn í Marseille en alls voru 27 liðsmenn glæpagengisins dæmir auk hans í gær. Fengu þeir styttri dóma en höfuðpaurinn eða frá eins árs fangelsti til sex ára.

Achouri var með skrifstofu í La Castellane í turni K og þaðan seldi hann fíkniefni fyrir háar fjárhæðir á degi hverjum.

Eiturlyfjasalan vatt upp á sig enda kaupendurnir í þúsundavís. Meðal annars rak Achouri vændissölu, vopna- og eiturlyfjasmygl og fleira í byggingunni sem áður hýsti innflytjendur frá Alsír.

Í júní 2013 gerði lögreglan húsleit í höfuðstöðvum Achouris og lögðu hald á 1,3 milljónir evra í reiðufé.

Lögmaður Achouris var afar ósáttur við niðurstöðu dómsins sem hann sagði byggða á engum sönnunum. Skjólstæðingur hans hafi aldrei snert á eiturlyfjum né heldur illa fengnu fé og að nafn hans komi hvergi fram í reikningum. Achouri neitaði sök og sagðist hafa hagnast á hefðbundnum viðskiptum þrátt fyrir að hann væri hvergi skráður í vinnu. Hann var þrátt fyrir það fyrirferðarmikill í athafnalífinu, eyddi háum fjárhæðum í spilavítum og á kappreiðum. Eins naut hann oft lífsins í Marbella á Spáni þar sem margir auðmenn hafa komið sér upp orlofshúsi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert