Hetjan stungin fjórum sinnum í bringuna

Upptökur úr eftirlitsmyndavél sem sýna þegar Spencer Stone lenti í áflogum seint í gærkvöldi hafa nú verið birtar opinberlega. Stone öðlaðist heimsfrægð eftir að hann  tók þátt í að yf­ir­buga vopnaðan mann í franskri lest í sum­ar.  Stone var hyllt­ur sem hetja eft­ir at­vikið og  Frakk­lands­for­seti sæmdi hann og þrjá aðra orðu heiðurs­fylk­ing­ar­inn­ar fyr­ir af­rekið.

Að sögn lögreglu var Stone stunginn fjórum sinnum í bringuna og særðist hann alvarlega. Samkvæmt frétt Sky News virðist árásin hafa orðið í kjölfar rifrildis úti á götu í Sacramento í Kaliforníu. Stone hafði verið úti að skemmta sér ásamt vinum sínum.

Ástand Stone er nú stöðugt en ekki liggur fyrir hvort það sjáist á upptökunni þegar hann er stunginn.

Árásin átti sér stað um klukkan 12:45 að staðartíma í nótt. Hún er ekki talin tengjast hryðjuverkum. Lögreglustjórinn í Sacramento, Ken Bernard sagði í dag að árásin tengdist ekki því sem gerðist í Frakklandi í sumar. „Árásin virðist tengjast atviki á næturklúbbi. Þetta voru deilur á milli tveggja hópa.“

Sumir fjölmiðlar hafa greint frá því að Stone hafi verið að verja vinkonu sína í nótt. Lögregla ræddi við konu og karl í tengslum við málið en enginn hefur verið handtekinn. Að sögn Bernard leitar lögregla nú tveggja asískra karla á þrítugsaldri. Þeir flúðu í dökkri Toyota Camry bifreið.

Samkvæmt bandarísku sjónvarpsstöðinni KCRA voru áverkar Stone það alvarlegir að í fyrstu var ekki talið að hann myndi lifa af og hrint var af stað morðrannsókn.

Fyrri frétt mbl.is: Lestarhetja stungin margsinnis

Spencer Stone hlaut orðu vegna afreka sinna í lestinni.
Spencer Stone hlaut orðu vegna afreka sinna í lestinni. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert