Kryfja ljón í garðinum í næstu viku

Gíraffinn Maríus sem var felldur í dýragarðinum í Kaupmannahöfn á …
Gíraffinn Maríus sem var felldur í dýragarðinum í Kaupmannahöfn á síðasta ári. AFP

Ljón sem var aflífað fyrir níu mánuðum í dönskum dýragarði verður krufið í garðinum fyrir allra augum á fimmtudaginn í næstu viku. Mikla athygli vakti þegar heilbrigður gíraffi var aflífaður í dönskum dýragarði í febrúar á síðasta ári. Hann var krufinn og því næst fengu ljónin að gæða sér á hræi hans.

Að sögn Michaels Wallberg Sorensen, dýrahirðis í dýragarðinum í Óðinsvéum, telur starfsfólkið þar að lærdómsríkt sé fyrir gesti garðsins að fylgjast með krufningu ljóns og því hafi verið ákveðið að bjóða upp á þetta í garðinum. Dýrið var aflífað snemma á þessu ári þar sem of mörg ljón voru í garðinum og hefur það verið geymt í frysti síðan.

Í  næstu viku fá grunnskólabörn í Danmörku frí í skólanum í nokkra daga og á dýragarðurinn von á fjölda fólks í heimsókn. Ætla má að þar verði börn í meirihluta og einhver þeirri verði vitni að krufningunni.

Gíraffinn Maríus var felldur í dýragarði í Kaupmannahöfn í febrúar á síðasta ári og mætti það mikilli gagnrýni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert