Árásir beinast ekki gegn Ríki íslams

AFP

Frönsk og bandarísk yfirvöld segja að 80-90% af árásum Rússa í Sýrlandi sé ekki beint gegn Ríki íslams. John Kirby, talsmaður bandaríska varnarmálaráðuneytisins, segir að yfir 90% árása Rússa hafi beinst gegn öðrum en liðsmönnum Ríkis íslams og hryðjuverkahópum tengdum Al-Qaeda.

Varnarmálaráðherra Frakklands, Jean-Yves Le Drian, tekur undir þetta en hann var í viðtali við Europe1 útvarpsstöðina í morgun. Franskar orrustuþotur gerðu loftárásir á bækistöðvar Ríkis íslams í Sýrlandi í nótt. Að sögn Le Drian tóku tvær Rafale þotur þátt í árásinni en þær létu sprengjur falla á þjálfunarbúðir Ríkis íslams. Búðunum var eytt, segir hann og bætir við að Frakkar muni áfram taka þátt í aðgerðum gegn Ríki íslams í Sýrlandi.

Yfirvöld í Bandaríkjunum segja að árásir Rússa beinist nánast einvörðungu gegn þeim uppreisnarhópum sem berjast gegn stjórnarhernum í Sýrlandi.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert