Flóttamenn í sæti ritstjórnar

Föstudagsútgáfa danska dagblaðsins Information er skrifuð af flóttamönnum. Hart er deilt í Danmörku á komu flóttafólks til landsins.

Fyrr í vikunni var haldinn samstöðufundur með flóttafólki í Kaupmannahöfn en margir eru ósáttir við harða stefnu stjórnvalda varðandi innflytjendur og hælisleitendur.

Í blaðinu Information í dag eru það tólf flóttamenn sem annast skrifin. Ritstjóri Information, Christian Jensen, segir að dagblaðið hafi viljað gefa þeim sjaldan heyrist í tækifæri á að koma sínum skoðunum að.

Áður en blaðið kom út gerðu blaðamenn og fréttastjórar Information harða hríð að Inger Støjberg, ráðherra samþættingar, á samfélagsmiðlum. Gagnrýndu þeir hana harðlega fyrir að svara ekki viðtalsbeiðnum frá innflytjendum sem voru blaðamenn við blaðið.

Jensen bætti um betur í blaðinu í dag þar sem hann segir að í augum stjórnmálamanna séu flóttamenn vandi sem eigi að leysa eins fljótt og auðið er. Helst án þess að berja þá augum. Þar á meðal sé Inger Støjberg sem, þrátt fyrir tíu daga fyrirvara, gat ekki gefið sér tíma til þess að svara spurningum starfsmanna ritstjórnar Information.

Flóttafólkið sem skrifar í blaðið í dag er frá Sýrlandi, Sómalíu, Afganistan, Keníu, Taílandi og Kúrdistan. Sumir þeirra eru nýkomnir til Danmerkur en aðrir hafa verið þar árum saman.

Vefur Information

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert