Hefðu stöðvað helförina með byssum

Ben Carson mælist með næstmest fylgi frambjóðenda í forvali repúblikana …
Ben Carson mælist með næstmest fylgi frambjóðenda í forvali repúblikana um þessar mundir. AFP

Repúblikaninn Ben Carson heldur áfram að setja fram umdeild ummæli um skotvopnamál. Fullyrðingar hans um að hann hefði reynt að stöðva byssumann í skotárás í Oregon í síðustu viku vöktu deilur. Nú gefur hann í skyn að gyðingar hefðu getað komið í veg fyrir helförina hefðu þeir verið vopnaðir. 

Skotárásin í háskóla í Oregon í síðustu viku þar sem níu manns féllu fyrir hendi manns á þrítugsaldri hratt umræðu um byssulöggjöfina í Bandaríkjunum af stað í enn eitt skipti. Slíkar árásir eru daglegt brauð í Bandaríkjunum en hert vopnalöggjöf er mikið hitamál. Sumir halda því fram að stífari reglur muni fækka voðaverkum af þessu tagi en fyrir öðrum er byssueign grundvallarmannréttindi sem alls ekki má taka af fólki.

Carson lýsti því fyrr í vikunni hvernig hann vildi fá fólk til að bjóða vopnuðum mönnum byrginn. Sjálfur hefði hann reynt að stoppa byssumanninn í Oregon en ekki bara „leyft honum að skjóta sig“.

Minni líkur á að Hitler hefði náð markmiðum sínum

Frambjóðandinn í forvali repúblikana fyrir forsetakosningarnar á næsta ári var spurður út í bók sem hann gaf nýlega út þar sem hann vísar til Þýskalands nasismans sem rök fyrir því að takmarka ekki rétt fólks til byssueignar, að því er kemur fram í frétt The Guardian.

„Til að það sé á hreinu, ef það hefði ekki verið nein vopnalöggjöf í Evrópu á þessum tíma hefði sex milljónum gyðinga verið slátrað?“ spurði þáttastjórnandinn Wolf Blitzer á CNN Carson.

„Ég hugsa að líkurnar á því að [Adolf] Hitler hefði getað náð markmiðum sínum hefðu verið verulega minnkaðar ef fólk hefði verið vopnað.... Ég er að segja þér að það er ástæða fyrir því að þetta einræðisfólk tekur byssurnar fyrst í burtu,“ sagði Carson.

Skoðanakannanir benda til þess að Carson njóti næstmests fylgis af frambjóðendunum í forvalinu á eftir auðkýfingnum Donald Trump.

Frétt The Guardian af ummælum Carson

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert