Sjö þúsund flóttamenn á dag

Á hverjum degi koma sjö þúsund flóttamenn að landi á grísku eyjunum skammt frá Tyrklandi. Í síðasta mánuði var fjöldinn mun minni eða 4.500 manns á dag. 

Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Alþjóðstofn­un­ar inn­flytj­enda­mála, In­ternati­onal Org­an­izati­on for Migrati­on (IOM) en ótti við versnandi veður getur orðið til þess að flóttafólki á eftir að fjölga enn frekar á næstu vikum.

Í dag fóru um tuttugu Erítreumenn til Svíþjóðar frá Ítalíu en þeir eru fyrstu flóttamennirnir sem eru sendir til annars lands innan Evrópusambandsins í áætlun sem miðar að því að draga úr álaginu á Ítalíu og Grikkland en flestir flóttamenn koma að landi þar. 

Á sama segjast Tyrkir vera hræddir um að enn fleiri Sýrlendingar eigi eftir að flýja yfir landamærin til Tyrklands vegna loftárása Rússa í Sýrlandi. 

Talsmaður tyrkneska utanríkisráðuneytisins, Tanju Bilgic, varaði við þessu í dag en Tyrkir hafa þegar tekið við um tveimur milljónum sýrlenskra flóttamanna. Margir þeirra eru fullir örvæntingar þar sem þeim býðst að dvelja í yfirfullum flóttamannabúðum í Tyrklandi. Því reyna margir þeirra að forða sér yfir til Evrópusambandsríkjanna í leit að betra lífi.

Ástandið er einna verst á grísku eyjunni Lesbos en þar fjölgar flóttamönnum dag frá degi. En reynt er að afgreiða flesta þeirra eins hratt og hægt er og í síðustu viku voru 70% þeirra flóttamanna sem þangað komu farnir yfir til Makedóníu nánast samdægurs.

Í tilkynningu frá IOM kemur fram að Sýrlendingarnir fari hraðar frá eyjunni að landamærum Grikklands þar sem þeir hafi ráð á því. Þeir geta keypt miða með  bátum til Aþenu og þaðan far með rútum að landamærunum. Aftur á móti eiga afganskir flóttamenn erfiðara með að útvega nægt fé til þess að kaupa miða með bátum og rútum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert