Skar handlegg húshjálparinnar af

Kasturi Munirathinam liggur nú á sjúkrahúsi í Riyadh.
Kasturi Munirathinam liggur nú á sjúkrahúsi í Riyadh. Skjáskot af BBC

Utanríkisráðuneyti Indlands hefur lagt fram kvörtun til yfirvalda í Sádi Arabíu vegna meintrar árásar á 58 ára indverska konu í Riyadh. Árásin er talin hafa verið einstaklega hrottafengin en hægri handleggur konunnar var skorinn af. Meintur gerandi í málinu er vinnuveitandi fórnarlambsins en indverska konan starfar sem húshjálp.

Fórnarlambið heitir Kasturi Munirathinam og er hún nú á sjúkrahúsi. Vinnuveitandi hennar réðst á hana þegar hún reyndi að flýja úr húsinu í síðustu vikunni.

Að sögn fjölskyldu Munirathinam höfðu vinnuveitendur hennar pyntað hana í Sádi Arabíu en yfirvöld þar í landi hafa ekki tjáð sig um málið. Kona starfaði sem húshjálp inni á heimili í borginni. 

Utanríkisráðherra Indlands, Sushma Swaraj sagði á Twitter að árásin væri „óásættanleg“ og að indversk yfirvöld hafi haft samband við Sádi Araba vegna þess. „Sendiráð okkar er í sambandi við fórnarlambið,“ skrifaði hún og bætti við að gífurlega illa hafi verið komið fram við fórnarlambið í Sádi Arabíu.

Að sögn fjölskyldu Munirathinam hóf hún störf hjá vinnuveitendum sínum í Riyadh fyrir þremur mánuðum síðan. Reiddust vinnuveitendur hennar konunni þegar hún kvartaði yfir þeirri áreitni sem hún varð fyrir á heimilinu.

„Síðan hún byrjaði að vinna hjá þessari fjölskyldu í júlí hafa hlutirnir ekki verið í lagi. Móður okkar var ekki einu sinni leyft að tala við okkur í símann, hún fékk ekki almennilegan mat og var látin vinna langar vaktir,“ sagði sonur konunnar, S Kumar í samtali við BBC.

Að sögn systur fórnarlambsins S Vijayakumari er ástand hennar „alvarlegt“ en hún er á sjúkrahúsi í Riyadh. Fjölskyldan er ánægð með að konan fái almennilega læknisþjónustu en eru hrædd um að þau geti ekki greitt fyrir hana.

Þau hafa beðið indversk yfirvöld um að aðstoða þau við að greiða fyrir dvöl konunnar á sjúkrahúsinu.

Samkvæmt frétt BBC fara þúsundir karla og kvenna frá Indlandi til Arabalandana á ári hverju til þess að starfa sem húshjálpir og verkamenn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert