Mikil spenna við Gaza

Mikil spenna ríkir á og við Gaza en Ísraelsher segir að palestínskir uppreisnarmenn hafi skotið flugskeyti yfir á suðurhluta Ísraels. Áður en það gerðist höfðu sex Palestínumenn verið skotnir til bana skammt frá landamærunum að Gaza.

Ísraelsher segir að sírenur hafi gert íbúum viðvart. Flugskeyti hafi hins vegar hafnað á akri fjarri íbúabyggð. Engan sakaði. 

Undanfarna daga hafa átök á svæðinu farið stigvaxandi á milli Palestínumanna og ísraelskra hermanna. 

Fram kemur á vef BBC, að fjórir Ísraelar hafi fallið í hnífa- og skotárásum sem Palestínumenn eru sagðir bera ábyrgð á. Þá hafi a.m.k. þrír Palestínumenn látist í átökum við ísraelskar öryggissveitir á Vesturbakkanum og í Austur-Jerúsalem.

Ismail Haniyeh, leiðtogi Hamas-samtakanna sem stýrir Gaza, segir að ný uppreisn sé hafin. Fréttaskýrandi BBC í Jerúsalem vill hins vegar ekki taka svo sterkt til orða miðað við það sem undan er gengið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert