Ræða öryggismál vegna lofthernaðar yfir Sýrlandi

Rússnesk herþota hefur sig til flugs.
Rússnesk herþota hefur sig til flugs. AFP

Rússnesk stjórnvöld hafa samþykkt að hefja á ný viðræður við Bandaríkjamenn um flugöryggismál í tengslum við loftárásir þjóðanna í Sýrlandi. Þetta segir talsmaður bandaríska varnarmálaráðuneytisins.

Peter Cook, talsmaður ráðuneytisins, segir að viðræður muni að öllum líkindum eiga sér stað um helgina. Þetta kemur fram á vef BBC.

Margir hafa haft áhyggjur af því að það kæmi óvart til átaka á milli Rússa og Bandaríkjamanna sem hafa gert loftárásir á ólík skotmörk í Sýrlandi. 

Bandaríkin og bandamenn þeirra í NATO hafa m.a. fengið upplýsingar um að rússneskar herþotur hafi flogið inn í tyrkneska lofthelgi

Rússneskir og bandarískir embættismenn ræddu flugöryggismál í gegnum fjarfundarbúnað 1. október sl. Bandaríkin hafa hins vegar gert athugasemdir við að ekkert hafi heyrst frá Rússum síðan þá. 

Embættismenn hjá varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna sögðu fyrr í vikunni, að þeir hafi a.m.k. eitt skipti orðið að grípa í öryggisráðstafana til að koma í veg fyrir að bandarísk þota flygi of nálægt rússneskri herþotu yfir Sýrlandi. Tekið var fram að þetta hefði gerst eftir 1. október. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert