Sprengingar í Ankara

Tvær sprengjur sprungu í Ankara, höfuðborg Tyrklands, þar sem friðarganga átti að fara fram. Sprengjurnar sprungu skammt frá aðaljárnbrautarstöð borgarinnar. Tyrkenskir fjölmiðlar segja að a.m.k. 20 hafi látist.

Sjúkralið og önnur viðbragðsteymi hafa verið send á vettvang. 

Fram kemur á vef BBC, að svo virðist sem að sprengjuárásunum hafi verið beint gegn friðargöngunni, en stjórnarandstaðan hafði skipulagt fjöldafund til að kalla eftir því að stjórnvöld bindi enda á ofbeldi gegn PKK, sem er uppreisnarhópur tyrkneskra Kúrda.

HDP-flokkurinn, sem nýtur stuðnings margra Kúrda í Tyrklandi, er á meðal þeirra flokka sem komu að því að skipuleggja friðargönguna. Hún átti að hefjast klukkan 12 að staðartíma. 

Í júní sl., skömmu fyrir tyrkensku þingkosningarnar, var gerð sprengjuárás á annan fjöldafund HDP-flokksins í borginni Diyarbakir.

Aðrar kosningar munu fara fram í Tyrklandi í næsta mánuði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert