Drengurinn með gullbyssuna

Forsetinn Alexander Lukashenko ásamt yngsta syni sínum, Nikolay. Í Hvíta-Rússlandi …
Forsetinn Alexander Lukashenko ásamt yngsta syni sínum, Nikolay. Í Hvíta-Rússlandi er rætt um að verið sé að undirbúa Kolya til að taka við af föður sínum, en þess ber að geta að lýðræði ríkir í landinu, a.m.k. að nafninu til. AFP

Hann er aðeins 11 ára en hefur þegar sótt allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna, verið myndaður með Barack Obama og hitt páfa. Þar að auki á hann gullslegna byssu. Pilturinn sem um ræðir er nefndur Kolya og er óskilgetinn sonur Alexanders Lukashenko, forseta Hvíta-Rússlands, sem hefur verið kallaður „síðasti einræðisherra Evrópu“.

Á sunnudag sást til Kolya á kjörstað með föður sínum, þegar forsetinn var endurkjörinn í fimmta sinn með miklum meirihluta atkvæða. Samband hins 61 árs Lukashenko við yngsta son sinn þykir nokkuð sérstakt og er margumtalað í Hvíta-Rússlandi, en hann á einnig Viktor, 39 ára, sem er ráðgjafi föður síns í þjóðaröryggismálum, og Dmitry, 35 ára, sem fer fyrir íþróttaklúbbi forsetans.

Lukashenko hefur viðurkennt að Kolya sé ekki sonur eiginkonu sinnar Galinu, móður Viktors og Dmitrys, heldur ónefnds læknis. Leiddar hafa verið líkur að því að móðir Kolya sé fyrrverandi persónulegur læknir forsetans, Irina Abelskaya, en drengurinn býr hjá föður sínum.

Galina, fyrrverandi kennari, sést sjaldan við hlið eiginmanns síns, sem hefur þó lofað þátt hennar í velgengni sinni. Tilvist Kolya komst aðeins í hámæli þegar pilturinn var þriggja ára gamall en þegar hann var fjögurra ára sást hann á íshokkileik með föður sínum.

Í viðtali við Rain TV í Rússlandi í fyrra sagði Lukashenko að Kolya hefði hitt eiginkonu sína nokkrum sinnum og að móðir hans setti sig ekki upp á móti því.

Feðgarnir þykja augljóslega nánir og eru oft myndaðir í samskonar klæðnaði, hvort sem um er að ræða jakkaföt eða herbúninga, og þá hefur sést til herforingja hylla drenginn líkt og um fimm stjörnu hershöfðingja væri að ræða. Fyrst sást til gullbyssu stráksa á stríðsleikjum Hvít-Rússa og Rússa árið 2009 en hún vakti m.a. athygli þáverandi forseta Rússlands, Dmitry Medvedev.

Móðir piltsins sér hann ekki oftar en almenningur

Á heimasíðu forsetans er ekki að finna upplýsingar um persónulega hagi Lukashenko en myndir sýna þá feðga leiðast við hátíðarhöld til að fagna sigri bandamanna í seinni heimstyrjöldinni.

Í síðasta mánuði voru feðgarnir myndaðir með Barack og Michelle Obama í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna, þar sem þeir stóðu heldur vandræðalegir milli skælbrosandi forsetahjónanna. Þá sáu blaðamann hvar drengurinn sat í stúku Hvíta-Rússlands á allsherjarþingi SÞ, en aðgang að henni hafa aðeins hátt settir diplómatar.

Kolya er aðeins 11 ára en hefur þegar hitt páfa …
Kolya er aðeins 11 ára en hefur þegar hitt páfa og ýmsa þjóðhöfðingja. AFP

Árið 2008 sagði Lukahsenko í viðtali við rússneska blaðið Komsomolskaya Pravda að Kolya, þá fjögurra ára, leyfði engum nema föður sínum að fæða sig og klæða. Þá sagði forsetinn í samtali við bandaríska fræðimanninn Grigory Ioffe að hann einn bæri ábyrgð á uppeldi sonar síns og að móðir Kolya sæi hann ekki oftar en almenningur sæi hann í sjónvarpi.

Kolya, sem kom í heiminn daginn eftir að Lukashenko fagnaði 50 ára afmæli sínu, hefur m.a. hitt Benedikt páfa, Hugo Chavez heitinn og Xi Jinping, forseta Kína. Í kjölfar hryðjuverkaárásar á lestarkerfi Minsk árið 2011 fylgdi pilturinn föður sínum þegar hann skoðaði ummerkin og lagði blóm á vettvangi.

Erfingi forsetastólsins?

Hvít-Rússar ræða nú sín á milli að verið sé að undirbúa Kolya undir að taka við af föður sínum. Sjálfur sagði Lukashenko við Hugo Chavez, fyrrverandi forseta Venesúela, að þegar kæmi að samstarfi ríkjanna væri „einhver“ til staðar til að taka við keflinu eftir 20-25 ár.

Orðrómar ganga um framkomu Kolya gagnvart starfsfólki og jafnvel eldri bræðrum sínum. Samkvæmt Belgazeta, dagblaði stjórnarandstöðunnar, náði ríkissjónvarpið myndum af Kolya þar sem hann sést banda bræðrum sínum frá við kirkjuathöfn. Blaðið hefur gefið í skyn að Hvít-Rússar séu almennt öfundsjúkir út í drenginn, þar sem þeir þurfi að mæta til vinnu á morgnanna á meðan erfðaprinsinn umgangist mektarfólk.

Sumir Hvít-Rússar segja hins vegar að hegðun Lukashenko gagnvart syni sínum sé afbrigðileg og að pilturinn sé undir gríðarlegu andlegu álagi.

Lukashenko segir að Kolya gangi í hefðbundinn þorpsskóla og sjónvarpsupptökur hafa sýnt drenginn taka þátt í uppsetningu skólaleikrits. Blaðamann hafa hins vegar reiknað út að hann hafi þegar misst viku úr námi vegna heimsókna til Kína og New York.

Sumir rekja fjölmiðlaumfjöllunina um piltinn til breska ímyndarráðgjafans Timothy Bell, sem var ráðinn til að „mýkja“ ímynd forsetans árið 2008.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert