Fjögurra ára nauðgað hrottalega

AFP

Fjögurra ára gömul stúlka er á gjörgæsludeild í höfuðborg Indlands, Delí, eftir hrottalega nauðgun. Stúlkan fannst meðvitundarlaus við járnbrautarteina á föstudagskvöldið. Tveir menn eru í haldi lögreglu vegna málsins.

Aðstoðarlögreglustjóri Delí, Vijay Singh, segir í samtali við BBC að enginn hafi verið handtekinn vegna málsins en verið væri að yfirheyra mennina tvo.

Að sögn lækna hefur hún farið í aðgerðir vegna fjölmargra áverka. Litla stúlkan fannst skammt frá heimili sínu, fátækrahverfi norður af borginni. Fjölskylda hennar telur að hún hafi verið lokkuð af hópi karla með loforði um mat eða sælgæti. 

Umboðsmaður kvenna í Delí, Swati Maliwal, hefur heimsótt stúlkuna á sjúkrahús og segir áverka á henni skelfilega. Þrátt fyrir að viðurlög við kynbundnu ofbeldi hafi verið hert í Indlandi í kjölfar hrottalegrar nauðgunar á ungri konu í strætisvagni í Delí árið 2012 þá berast stöðugt fréttir af hrottalegum nauðgunum og kynferðislegu ofbeldi gagnvart konum og börnum frá Indlandi. 

Það sem af er ári hafa yfir 1500 nauðganir verið tilkynntar til lögreglu í höfuðborginni en talið er að þær séu margfalt fleiri því aðeins brot þeirra er tilkynnt til lögreglu.

Í indverskum fjölmiðlum er talað um að árásarmennirnir hafi verið allt að fimmtíu talsins og að stúlkan sé í lífshættu.

Hún var nakin og öll blóðung þar sem hún fannst liggjandi á járnbrautarteinunum í Keshav Puram hverfinu- hafði verið skilin eftir þar til þess að deyja.

Læknar við Safdarjung sjúkrahúsið segja að alvarlega áverka sé að finna um allan líkama barnsins en þeir alvarlegustu eru á kynfærum hennar sem eru svo illa farin að það þurfti að endurgera þau með skurðaaðgerð.

Maliwal skrifar á Twitter að það sé orðið tímabært að þessu skelfilega ofbeldi gagnvart konum og börnum fari að ljúka. Það sé búið að skrá nauðgun en hvernig væri að einhverjir væru handteknir vegna glæpsins.

Fjölskylda hennar telur að árásarmennirnir séu úr hópi karla sem sátu að sumbli í áfengisverslun þar skammt frá. Stúlkan fannst skammt frá áfengisversluninni. 

Á síðasta ári voru aðeins sakfellt í níu glæpum gegn konumí Delí, skrifar Maliwal og bendir á að borgin sé hættulegur staður fyrir konur að vera á.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert