710 þúsund flóttamenn á níu mánuðum

Landamæraeftirlit Evrópusambandsins, Frontex, segir að 710 þúsund flótta- og förufólk hafi komið til ríkja ESB á fyrstu níu mánuðum ársins. Allt árið í fyrra komu 282 þúsund flótta- og förufólk inn fyrir landamæri ESB.

Í gær sagði flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna að ný áætlun ESB varðandi flóttafólk sem er að flýja stríð og fátækt sé ekki nóg. 

Samkvæmt upplýsingum frá Frontex hafa flestir komið að landi á grísku eyjunum í Eyjahafi og þar fjölgar flóttafólkinu einnig mest. En heldur hafi dregið úr fjöldanum milli mánaða því í ágúst komu 190 þúsund en 170 þúsund flóttamenn komu til ESB í september.

Yfirmaður Frontex, Fabrice Leggeri, ítrekaði í dag bón sína til ríkja ESB um að útvega fleiri landamæraverði til þess að taka á móti straumi flóttafólks. Staðan sé verst í Grikklandi og Ítalíu, til að mynda varðandi skráningu við komuna til Evrópusambandsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert