„Hundurinn minn ók bílnum“

Skjáskot af YouTube

Bandaríkjamaður nokkur að nafni Reliford Cooper III hélt því fram nýverið að hundur hefði verið við stýrið eftir að bifreið hans lenti í árekstri í Flórída-ríki á dögunum og hann reyndi í kjölfarið að flýja af vettvangi. „Hundurinn minn ók bílnum. Ég hljóp vegna þess að mig langaði til þess. Þið munuð ekki finna nein fíkniefni eða byssur á mér.

Cooper er grunaður um að hafa ekið undir áhrifum áfengis eins og líklega þarf ekki að koma á óvart. Hann hunsaði stöðvunarskyldu undir stýri og ók yfir tvo skurði áður en bifreiðin skall á íbúðarhúsnæði. Cooper, sem er 26 ára að aldri, flúði úr bifreiðinni og leitaði skjóls á salerni kirkju í nágrenninu en var gert að yfirgefa kirkjuna skömmu síðar.

Haft er eftir lögreglumanni sem handók Cooper á fréttavef Daily Telegraph að sterk áfengislykt hafi komið út úr honum sem og af marijúana. Þá hafi Cooper haldið áfram að blaðra án þess að vera spurður að einu né neinu. Þvínæst kastaði hann upp og kvartaði yfir því að vera illt í bakinu eftir áreksturinn. Cooper hefur verið ákærður fyrir ölvunarakstur, fyrir að flýja af vettvangi slyss og að hafa sýnt mótþróa við handtöku.

Líklega kemur heldur ekki á óvart að enginn hundur fannst á svæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert