Norskur foringi Ríkis íslams látinn

Bastian Alexis Vasquez
Bastian Alexis Vasquez Skjáskot Almyat

Norskur maður sem var háttsettur í skæruliðahópi Ríkis íslams er látinn, að sögn lögmanns hans.

Bastian Alexis Vasquez, sem er fæddur í Síle, er að öllum líkindum látinn, að því er fram kom í réttarsal í sumar þar sem tekist var á um hvort frysta ætti eignir hryðjuverkamannsins. Alls eru rúmar 10 þúsund norskar krónur inni á bankareikningi hans. Lögmaðurinn, John Christian Elden, sagði í tölvupósti sem hann sendi til réttarins þann 17. júlí að hann hefði upplýsingar um að Vasquez væri látinn, að því er segir í úrskurði dómsins frá 7. ágúst. Það er VG sem greinir frá þessu.

Vasquez, sem var 25 ára gamall, hneigðist snemma til öfga íslams og var hluti af hópi sem nefnist Profetens Umma í Ósló. Hann fór til Sýrlands haustið 2012 til þess að berjast fyrir Ríki íslams og varð fljótt einn af háttsettustu Evrópubúum sem eru hjá samtökunum.

Fyrst var greint frá falli hans síðasta haust, eða fljótlega eftir að Ríki íslams birti myndskeið þar sem hann sprengir upp byggingu þar sem fjölmörgum föngum var haldið. Áður en hann gerir sprengjuna virka brosir hann og þakkar Allah.

Frétt VG og myndskeið með Vasquez

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert