Stefnt að Evrópuher „hraðar en fólk grunar“

Ljósmynd/Evrópuþingið

„Við stefnum í áttina að Evrópuher mun hraðar en fólk grunar,“ sagði Joseph Daul, forseta þingflokksins European People's Party (EPP) á Evrópuþinginu, við blaðamenn á fimmtudaginn, en flokkurinn er sá fjölmennasti í þinginu. Flokksþing EPP verður haldið í næstu viku en búist er við að þar verði samþykkt að stefnt verði að því að Evrópusambandið verði varnarbandalag.

Greint er frá þessu á fréttavefnum EurActiv.com en forystumenn EPP, sem er stærsti þingflokkur mið- og hægrimanna á Evrópuþinginu, telja að nauðsynlegt sé að taka þetta skref í ljósi þess þeirra vandamála sem komið hafi upp í nágrannaríkjum Evrópusambandsins og er þar meðal annars vísað til átakanna í Úkraínu og flóttamannavandans.

Fram kemur í fréttinni að hugmyndir um Evrópuher séu ekki nýjar af nálinni. Þannig hafi slíkar hugmyndir fyrst verið settar fram árið 1950. Þær hafi hins vegar ekki náð fram að ganga. Fyrr á þessu ári hafi Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sagt að sambandið þyrfti á eigin her að halda sem mótvægi meðal annars við Rússland.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert