Clinton stóð af sér Benghazi-árásir

Hillary Clinton þykir hafa komist vel frá 11 klukkustunda löngum …
Hillary Clinton þykir hafa komist vel frá 11 klukkustunda löngum vitnisburði fyrir þingnefnd um árásina í Benghazi í gær. AFP

Frammistaða Hillary Clinton þegar hún bar vitni fyrir þingnefnd sem rannsakar árásina á bandaríska sendiráðið í Benghazi í Líbíu árið 2012 í gær þykir hafa styrkt stöðu hennar í aðdraganda forsetakosninganna á næsta ári. Repúblikanar hafa verið sakaðir um að nota árásina til að koma höggi á Clinton.

Fjórir Bandaríkjamenn féllu þegar íslamskir öfgamenn réðust á sendiskrifstofur þeirra í Benghazi 11. september árið 2012, þar á meðal sendiherrann Christopher Stevens. Clinton var utanríkisráðherra í ríkisstjórn Baracks Obama á þeim tíma. Fjöldi rannsókna hefur farið fram á árásinni á vegum Bandaríkjaþings og leiddi ein þeirra meðal annars í ljós að öryggisráðstöfunum hafi verið ábótavant vegna kerfisbundinna mistaka og vanrækslu stjórnenda. Utanríkisráðuneytinu var þó ekki kennt um það.

Þingmenn repúblikana hafa haldið málinu mjög á lofti en þingmaður þeirra er formaður Benghanzi-nefndar fulltrúadeildarinnar sem Clinton kom fyrir í gær. Sumir þeirra halda því fram að Clinton hafi hunsað óskir sendifulltrúa í Líbíu um að bæta öryggi þeirra af pólitískum ástæðum. Hún hafi viljað nýta sér Líbíu sem dæmi um hvernig vel heppnuð utanríkisstefna hennar hefði skapað öruggt ríki og meiri viðbúnaður við sendiráðið hefði ekki hentað þeirri mynd sem hún vildi draga upp.

Kemur sterkari út úr vitnisburðinum

Repúblikanar hafa verið sakaðir um að þyrla upp ryki um atburðina í Líbíu til þess að koma höggi á Clinton og möguleika hennar á að verða næsti forseti Bandaríkjanna. Leiðtogi repúblikana í fulltrúadeildinni, Kevin McCarthy, viðurkenndi nýlega að rannsókninni væri ætlað að skaða Clinton pólitískt. Bent hefur verið á að rannsóknin hafi kostað skattgreiðendur tæpar fimm milljónir dollara.

Því var vitnisburðar Clinton fyrir nefndinni í gær beðið með eftirvæntingu. Hann tók alls ellefu klukkustundir í fjórum lotum. Ef tilgangurinn var að láta fyrrverandi utanríkisráðherrann líta illa út varð repúblikönum hins vegar ekki að ósk sinni.

„Ég axla ábyrgð á því sem gerðist í Benghazi. Ég er hér til að heiðra þjónustu þessara fjögurra manna,“ sagði Clinton en hafnaði öllum fullyrðingum um að hún hefði brugðist því að verða við óskum um herta öryggisgæslu við sendiskrifstofurnar fyrir árásina.

Þótti hún standa af sér öll áhlaup fulltrúa þingnefndarinnar. Stjórnmálaskýrendur sögðu að í ljósi þess að árásin hefði þegar verið ítarlega rannsökuð og ekkert styddi kenningu repúblikana um aðdraganda atburðanna í Benghazi hefðu þeir í raun gripið í hálmstrá í tilraunum sínum til að reka Clinton á gat. Þvert á það sem þeir ætluðu hefði Clinton mögulega komið sterkari út úr vitnisburðinum en hún var fyrir hann.

Frétt Vox um viðbrögð íhaldsmanna við vitnisburði Clinton

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert