Lenín verður Svarthöfði

Darth Vader og Darth Vader.
Darth Vader og Darth Vader. AFP

„Í hreinskilni sagt þá líkaði mér ekki sú hugmynd að eyðileggja hana, þannig að við komum niður á sveigjanlegri lausn,“ segir listamaðurinn Oleksandr Milov, sem á heiðurinn af „endurgerð“ gamallar styttu af Lenín í Odessa, sem hefur nú umbreyst í Svarthöfða.

Styttan er nýjasta fórnarlamb löggjafar sem tók gildi í Úkraínu í apríl sl. og kvað á um að öll ummerki kommúnískrar sögu landsins yrðu afmáð. Það ætti ekki að koma á óvart að Star Wars-þrjóturinn Darth Wader hafi verið mönnum ofarlega í huga þegar kom að „lýtaraðgerð“ styttunnar, en hann nýtur talsvert meiri hygli í Úkraínu en Sovétleiðtoginn sálugi.

Rússar eru síður en svo ánægðir með tilraunir grannþjóðar sinnar að útmá kommúnismann úr umhverfinu, en í Úkraínu hafa andófsmenn tekið gert Svarthöfða að sínum og skemmst er frá því að segja að einn slíkur gerði tilraun til forsetaframboðs í fyrra en var neitað um skráningu þegar hann vildi ekki framvísa skilríkjum.

Síðar sama ár buðu nokkrir Svarthöfðar sig fram í borgarstjórnarkosningum í Kíev og Odessa, hinni sögufrægu hafnarborg þar sem fyrrnefnd stytta var afhjúpuð á föstudag.

Oleksandr Milov, listamaðurinn á bakvið umbreytingu Lenín.
Oleksandr Milov, listamaðurinn á bakvið umbreytingu Lenín. AFP

Aðrar Star Wars-persónur hafa einnig freistað þess að setja mark sitt á úkraínska pólitík, þeirra á meðal hinn hárprúði Chewbacca, Jedi-meistarinn Yoda og hin hugdjarfa Amidala prinsessa.

Flestir þessara ólíklegu frambjóðenda tilheyra hinum agnarsmáa úkraínska Pírataflokki, sem AFP segir einn 40 áþekkra flokka sem hafa sprottið upp víða um heim til varnar internetfrelsi og takmörkunum á höfundarrétti.

Að sögn Milov varð Lenín að Svarthöfða án þess að skemmdir væru unnar á styttunni. Aðeins var um viðbætur að ræða. Listamaðurinn segir að til standi að koma internetbúnaði fyrir í hjálmi illmennisins, til að hann geti haft samskipti við aðra Sith-a.

Lenín nýtur takmarkaðra vinsælda í Úkraínu en þetta höfuð var …
Lenín nýtur takmarkaðra vinsælda í Úkraínu en þetta höfuð var nýlega grafið upp í Þýskalandi og sett á sýningu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert