277 dánir og 2000 sárir

Björgunarsveitarfólk reynir að brjóta sér leið í gegnum rústir húsa á skjálftasvæðunum í Afganistan og Pakistan. Að minnsta kosti 277 létust og um tvö þúsund slösuðust í skjálftanum sem reið yfir í gær. Skjálftinn var 7,5 stig að stærð.

Skjálftinn reið yfir á hrjóstrugu svæði sem er undir yfirráðum talibana og aðstæður víða frumstæðar. Talið er öruggt að mun fleiri hafi farist í skjálftanum en upptök hans voru nálægt Jurm í norðausturhluta Afganistan, í um 250 kílómetra fjarlægð frá Kabúl. Víða liggja öll fjarskipti niðri og djúpar sprungur torvelda allar samgöngur. 

Upptök skjálftans eru skammt frá upptökum skjálfta sem skók svæðið í október 2005. Sá var 7,6 stig og létu 75.000 lífið í honum og 3,5 milljónir misstu heimili sín. Skjálftinn í gær stóð yfir í minnsta kosti eina mínútu. Einn eftirskjálfti varð fljótlega eftir það og var hann 4,8 stig.

Pakistanski herinn hefur sent sjúkralið og lyf á skjálftasvæðin, tjöld og önnur hjálpargögn og Indverjar hafa boðið fram aðstoð við björgunarstörf. 

Meðal þeirra sem létust voru tólf skólastúlkur sem tróðust undir þegar þær, ásamt skólasystrum sínum, reyndu að ryðjast út úr skólanum þegar skjálftinn reið yfir. 214 hafa fundist látnir í Pakistan og yfir 1800 slösuðust þar.

Fjölmörg hús í borginni Peshawar í norðvesturhluta Pakistans gjöreyðilögðust í skjálftanum og margir íbúanna fastir undir brakinu. „Húsið sveiflaðist til og frá eins og pendúll,“ segir Tufail Ahmed eigandi verslunar í borginni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert