Komast ekki til afskekktra svæða

Barni bjargað um borð í þyrlu afganska hersins. Enn eru …
Barni bjargað um borð í þyrlu afganska hersins. Enn eru mörg svæði einangruð. AFP

Björgunarmenn þurfa að ryðja sér leið í gegnum rústir og eiga á hættu að mæta skæruliðum talibana til að komast að fólki í neyð vegna jarðskjálftanna í Pakistan og Afganistan. Að minnsta kosti 350 eru látnir. Enn á þó eftir að komast að afskekktustu svæðunum, en slíkt er ekki síst erfitt þar sem þau eru á valdi talíbana sem eru ekki endilega á þeim buxunum að hleypa björgunarfólki að.

Skjálftinn sem varð í gær mældist 7,5 stig. Upptök hans voru í Afganistan en áhrifanna gætti ekki síst í Pakistan þar sem m.a. féllu skriður, troðningur myndaðist meðal örvæntingarfullra íbúa og heilu húsin hrundu til grunna. Þá rofnaði fjarskiptasamband og rafmagnsleysi varð víða. 

Lögreglan í borginni Peshawar í Pakistan segir að hún hafi ekki komist að ákveðnum svæðum þar sem yfirvöld þar, hafi einfaldlega staðið í vegi fyir því. Björgunarfólk telur nauðsynlegt að komast til þessara afskekktu svæða en þar býr að minnsta kosti hálf milljón manna. Enn er því lítið vitað um ástandið á svæðinu eftir skjálftann. 

„Það er engin leið að eiga í samskiptum við yfirvöld í Kohistan, fjarskiptasamband er stopult, vegir eru ófærir og því getum við ekkert sagt um skemmdirnar þar,“ segir lögreglumaður í samtali við AFP-fréttastofuna. 

Sama staða er uppi á fleiri svæðum. Vitað er m.a. til þess að drykkjarvatn hafi mengast en að laga slíkt er eitt helsta verkefni björgunarmanna. Ljóst er að í það minnsta 80 þúsund manns séu án drykkjarvatns. 

Á öðrum svæðum eru það íbúarnir sjálfir sem standa að björgunarstarfinu, þeirra á meðal börn og aldraðir. Fólkið grefur í rústum húsa í von um að finna fólk á lífi. 

Staðfest er að 241 lést í Pakistan og að 1.600 manns þar í landi hafi slasast. 

Í dag hefur m.a. verið unnið að því að koma fólki til bjargar úr lofti og eru þyrlur pakistanska hersins m.a. notaðar í því verkefni. 

Enn er leitað að fólki á lífi í rústum húsa …
Enn er leitað að fólki á lífi í rústum húsa í Pakistan. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert