Börnin sofa úti í kuldanum

Pakistönsk börn bíða eftir heitri máltíð. Þau sofa nú undir …
Pakistönsk börn bíða eftir heitri máltíð. Þau sofa nú undir berum himni. AFP

Íbúar í héraðinu Chitral í norðvestur Pakistan reyna nú að púsla lífum sínum saman eftir að harður jarðskjálfti skók svæðið á mánudaginn. Aðeins eru tæpir þrír mánuðir síðan að gífurleg flóð gengu yfir svæðið og ollu skemmdum. Íbúarnir bíða nú eftir aðstoð frá yfirvöldum og þar sem það styttist í veturinn með hverjum deginum vill enginn þurfa að bíða lengi.

Fólk hefur þurft að sofa utandyra síðan á mánudaginn. Nágrannar hjálpa hvor öðrum með mat og aðrar nauðsynjar. Að minnsta kosti 370 létu lífið í jarðskjálftanum í Afganistan og Pakistan en hann var 7.5 stig.

„Börn þurfa að sofa utandyra í kuldanum,“ sagði Islah-ud-Din, sem býr í þorpinu Kesu, í samtali við AFP. „En enginn er kominn til þess að hjálpa þeim.“

„Við bíðum ekki endalaust eftir yfirvöldum,“ sagði hinn 29 ára gamli Lal Jan. „Fólkið hér er að hjálpa hvort öðru, fólk sem missti ekki hús sín útvega mat og skjól til þeirra sem misstu allt. Við hjálpum hvort öðru.“

Miklar rigningar í margar vikur á svæðinu ollu flóðum og létu að minnsta kosti 38 lífið í Khyber Pakhtunkwa, sem er nálægt Chirtral.

Þúsundir þurftu að flýja heimili sín og vegir og brýr í Chitral eyðilögðust.

Skjálftinn á mánudaginn hafði mestu áhrifin í Khyber Pakhtunkhwa. Af 180 húsum í þorpinu Langa eyðilögðust 70 og mörg önnur skemmdust samkvæmt upplýsingum frá bæjarfulltrúanum Jamshed Alam. „Engin hjálp hefur borist frá yfirvöldum,“ sagði hann.  „Bæjarstjórnin byrjaði að meta skemmdirnar í gær en ekkert meir. Fólk reynir bara að hjálpa sér sjálft.“

Að sögn Alam hafa margir þorpsbúar þurft að sofa undir berum himni. „Þeir hafa ekkert að elda eða borða og treysta á mat nágrannana og annarra í þorpinu.“

Pakistönsk kona útbýr hádegisverð fyrir börn í Khyber Pakhtunkhwa.
Pakistönsk kona útbýr hádegisverð fyrir börn í Khyber Pakhtunkhwa. AFP
AFP
Þorpsbúi kannar skemmdir í þorpinu Gandao
Þorpsbúi kannar skemmdir í þorpinu Gandao AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert