Verkamenn frá N-Kóreu seldir í þrældóm

Kim Jong-Un leiðtogi Norður-Kóreu
Kim Jong-Un leiðtogi Norður-Kóreu AFP

Allt að 50 þúsund íbúar Norður-Kóreu voru sendir úr landi þar sem þeir voru látnir starfa við aðstæður sem minntu helst á þrælabúðir. Þetta segir Marzuki Darusman, sem hefur rannsakað málið á vegum Sameinuðu þjóðanna. BBC greinir frá þessu.

Darusman segir að tekjur verkamannanna séu litlar sem engar, þeir fái lítið að borða og í einhverjum tilvikum eru þeir neyddir til þess að vinna 20 tíma á dag. Framlagið sem rennur til stjórnvalda í Norður-Kóreu er mun hærra heldur en það sem mennirnir fá sjálfir fyrir vinnuna, segir í skýrslu hans.

Flestir þeirra eru í Kína og Rússlandi þar sem þeir starfa við námavinnslu, textíliðnað og byggingaframkvæmdir. 

En Darusman, sem fylgist  með mannréttindamálum í Norður-Kóreu fyrir hönd SÞ, segir að verkamennirnir séu einnig í Asíu, Afríku, Miðausturlöndum og Evrópu. Hann segir að fyrirtæki sem ráði verkamenn frá Norður-Kóreu til sín séu þátttakendur í þrælahaldi. 

Hann áætlar að yfirvöld í Norður-Kóreu fái á milli 1,2-2,3 milljarða Bandaríkjadala í laun fyrir mennina á ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert