Man það að vera á flótta

Barbara Keller heldur á mynd frá 1942; af sér, ömmu …
Barbara Keller heldur á mynd frá 1942; af sér, ömmu sinni og frænku. Hún man þann dag þegar fjölskylda hennar lagði á flótta sumarið 1945. AFP

Barbara Keller man sumardaginn 1945 þegar móðir hennar tjáði henni að fjölskyldan væri í þann mund að flýja til Þýskalands. Heimaland þeirra hætti að vera til í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinnar.

„Við þurftum að leggja af stað innan klukkustunda,“ segir Keller, sem þá var sjö ára gömul og bjó þar sem nú er Tékkland. Börnin máttu taka eitt leikfang með sér og Keller valdi brúðu, en bróðir hennar, tveggja ára, valdi uppáhaldsbangsann sinn.

„Sjötíu ár eru liðin en það kemur á óvart að ég tárast enn við tilhugsunina,“ segir Keller.

Að fylgjast með hundruðum þúsunda flóttamanna koma til Þýskalands á degi hverjum hefur vakið sársaukafullar minningar um flótta fjölskyldu hennar. „Ég sé sjálfa mig sem allslausan flóttamann, með ekkert nema tösku,“ segir leikskólakennarinn fyrrverandi.

Keller fékk að velja eitt leikfang til að taka með …
Keller fékk að velja eitt leikfang til að taka með sér. Fjölskyldan var annars allslaus; Keller átti ekkert nema bakpokann sem hún bar. AFP

Keller fæddist í ágúst 1938 og ólst upp í Reichenberg, norður af Prague, nærri landamærum Tékkóslóvakíu. Svæðið var þekkt undir nafninu Sudetenland og þar bjuggu þrjár milljónir Þjóðverja, þeirra á meðal fjölskylda Keller.

Aðeins tveimur mánuðum eftir að hún fæddist var svæðið innlimað af Adolf Hitler.

Eftir sigur bandarmanna voru yfirráð yfir svæðinu færð aftur til Tékkóslóvakíu, en stjórnvöld þar í landi hófu að vísa á brott þeim sem áttu uppruna sinn að rekja til Þýskalands.

Keller var ein af milljónum íbúa sem voru skyndilega heimilislausir, líkt og flóttamennirnir sem nú streyma til Þýskalands. Hin 77 ára Keller er ekki í vafa um að aðstoða beri flóttafólkið. „Við verðum að bjóða þeim vernd, gefa þeim eitthvað,“ segir hún; auðsýnd góðmennska margra Þjóðverja beri þess vitni að þeir hafi sjálfir upplifað að vera á flótta.

Keller hefur látið af hendi rakna fatnað og aðrar nauðsynjar en hefur þótt of mikið að eiga í beinum samskiptum við fólkið. „Ég veit ekki hvernig ég myndi bregðast við. Ég vil ekki hræða þau með því að brotna niður.“

Hún viðurkennir að aðlögunarferlið sem hún gekk gegnum fyrir áratugum hafi líklega verið mun auðveldara en það sem Sýrlendingar, Írakar eða Eritreumenn sem flúið hafa stríð eiga framundan. Hún þurfti hvorki að læra nýtt tungumál né aðlagast nýrri menningu.

Keller segist þó aldrei hafa unnið úr því áfalli að þurfa að flýja heimili sitt og flóttinn sé sjaldan ræddur innan fjölskyldunnar.

Keller hefur gefið fatnað og aðrar nauðsynjar til flóttafólksins, en …
Keller hefur gefið fatnað og aðrar nauðsynjar til flóttafólksins, en treystir sér ekki til að vera í beinum samskiptum við það þar sem hún vill ekki valda því frekara hugarangri með því að brotna niður. AFP

Þar sem hún var aðeins barn skildi Keller ekki hvers vegna hún var skyndilega rifin upp með rótum. Fjölskyldan varði fyrstu vikunum í búðum, áður en móðir hennar ákvað að halda til Bavariu, í nokkur hundruð kílómetra fjarlægð.

Þau ferðuðust bæði fótgangandi og með bifreiðum og lestum.

„Við tókum stefnuna á landamærin en rússneskir hermenn sendu okkur til baka. Móðir mín var með öll möguleg skjöl og stimpla en þeir sögðu að þau væru ekki gild,“ segir Keller.

Að lokum náðu þau þorpi þar sem bóndi sagði þeim frá leið yfir landamærin. Eftir að hafa gengið yfir akra og gegnum skóglendi heila nótt, sáu þau tjald og bandarískan fána. „Það var 14. október 1945,“ segir Keller.

Í dag heldur fjölskyldan daginn hátíðlegan.

Keller segist meðvituð um að aðlögun flóttafólksins sem nú streymir …
Keller segist meðvituð um að aðlögun flóttafólksins sem nú streymir til Þýskalands verði erfiðari en hún upplifði. Hún þurfti hvorki að læra nýtt tungumál né aðlagast nýrri menningu. AFP

Áfangastaðurinn var kastalinn í Regensburg, þar sem stórfjölskyldan hafði ákveðið að hittast ef til vandræða kæmi eftir stríð. Líkt og í dag var flóttafólki fundið skjól í skólum en pláss fylltust fljótt.

Móðir Keller fann að lokum vinnu sem kennari og með starfinu fylgdi húsnæði í skólanum. „Okkur leið vel í fyrsta sinn, að hafa fjóra veggi, jafnvel þótt þeir væru auðir,“ rifjar Keller upp.

Á fullorðinsárum bjó Keller í Bretlandi, Frakklandi og Lúxemborg, áður en hún sneri aftur til München á áttunda áratugnum til að synir hennar upplifðu sig sem Þjóðverja. En „þeir upplifa sig meira sem Evrópubúa,“ segir Keller; annar bjó í mörg ár í París og hinn býr í Chicago.

„Líklega vegna þess að við erum rótlaust fólk.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert