Ver þátttöku Spánar í hernaðaraðgerðum

José María Aznar lagði mikla áherslu á að styrkja tengslin …
José María Aznar lagði mikla áherslu á að styrkja tengslin við Bandaríkin. AFP

José María Aznar, fyrrverandi forsætisráðherra Spánar, hefur varið ákvörðun sína að styðja stríðið í Írak og segir Spán hafa komið út sem „sigurvegara“ hvað varðar áhrif og alþjóðlegan stuðning við markmið landsins.

Þetta kemur fram í bréfi sem Aznar reit í ágúst sl. og hefur verið birt í bók eftir núverandi forsætisráðherra, José Manuel García-Margallo.

Að sögn Aznar var stuðningur Spánar við Íraksstríðið í takt við stefnu annarra Evrópuríkja.

„Við gerðum það sem meirihluti annarra Evrópuríkja gerði, en sýnileiki okkar var meiri af því að við áttum tímabundið sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna,“ segir Aznar, sem var lykilbandamaður George W. Bush, þáverandi Bandaríkjaforseta, í aðdraganda stríðsins.

Aznar var við völd frá 1996 til 2004 og ríkisstjórn hans lýsti yfir stuðningi við stríðsreksturinn árið 2003, þrátt fyrir að kannanir sýndu að 90% spænsku þjóðarinnar væru honum mótfallin. Ákvörðunin um að fara gegn vilja þjóðarinnar var knúin pólitískum hvötum.

„Eftir embættistöku varð styrking tengsla við Bandaríkin forgangsverkefni,“ hefur Guardian eftir forsætisráðherranum fyrrverandi. „Þetta var góður leikur fyrir Spán og spratt af grundvallartilfinningu pólitískrar gagnkvænmi; þú getur ekki beðið vin um aðstoð og seinna, þegar sami vinur biður þig um eitthvað, sagt nei.“

Flokkur Aznar beið ósigur í þingkosningum 2004, sem voru haldnar aðeins nokkrum dögum eftir að 191 lést í sprengjuárásum á lestarkerfi Madríd. Margir hafa rakið stórsigur sósíalista í kosningunum til árásanna.

José Luis Rodriguéz Zapatero, sem tók við embætti forsætisráðherra, hafði ítrekað heitið því í kosningabaráttunni að kalla spænska hermenn aftur frá Írak.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert