Pýramídarnir „korngeymslur“

Pýramídarnir í Giza skammt undan Kaíró. Þeir voru reistir sem …
Pýramídarnir í Giza skammt undan Kaíró. Þeir voru reistir sem grafhýsi fyrir faróa Egyptalands til forna. Ómar Óskarsson

Það er ekki bara Donald Trump sem slengir fram framandlegum fullyrðingum af frambjóðendum í forvali repúblikana fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum. Taugalæknirinn Ben Carson segist enn þeirrar skoðunar að pýramídarnir í Egyptalandi hafi verið reistir af Jósef Biblíunnar undir korn.

Carson hefur mælst með mest fylgi frambjóðenda undanfarið ásamt auðkýfingnum Trump. Í vikunni var afhjúpað myndband frá ávarpi Carson í Andrews-háskóla árið 1998 þar sem frambjóðandinn ber á borð einkennilega söguskýringu um tilurð pýramídanna.

„Mín persónulega kenning er að Jósef hafi byggt pýramídana til þess að geyma korn. Núna telja allir fornleifafræðingarnir að þeir hafi verið reistir fyrir grafir faróanna. En, þú veist, [eitthvað til að geyma korn] þyrfti að voðalega stórt ef þú staldrar við og hugsar málið,“ sagði Carson.

Þar virtist Carson vísa til sögupersónunnar Jósefs úr Biblíunni sem var seldur í þrældóm til Egyptalands og ráðlagði faraónum síðar að geyma korn fyrir yfirvofandi hungursneyð. Tók Carson þó fram að hann legði ekki trúnað á samsæriskenningar um að geimverur hefðu reist pýramídana.

„Þið vitið að það er ekki þörf á geimverum þegar guð er með ykkur,“ sagði frambjóðandinn sem staðfesti að hann væri enn þessarar skoðunar við CBS News í gær.

Í samtali við Huffington Post segir J.C. Manning, prófessor í fornklassískum bókmenntum sem rannsakar egypska sögu við Yale-háskóla, að persónuleg kenning Carson sé „brjálæðisleg“.

„Þetta er biblíuleg sýn á pýramídana. Hún á sér bara enga stoð í staðreyndum,“ segir Manning.

Ben Carson, frambjóðandi í forvali repúblikana fyrir forsetakosningarnar á næsta …
Ben Carson, frambjóðandi í forvali repúblikana fyrir forsetakosningarnar á næsta ári. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert