Táknrænt „hjónabandsskírteini“

Hiroko Masuhara og Koyuki Higashi voru að vonum sælar eftir …
Hiroko Masuhara og Koyuki Higashi voru að vonum sælar eftir að hafa fengið skírteinið afhent. AFP

Yfirvöld í Shibuya-borgarhlutanum í Tókýó hafa riðið á vaðið og gefið út skírteini til lesbía þar sem segir að samband þeirra sé jafngilt hjónabandi. Skjalið hefur enga löglega þýðingu en það er táknrænt og ætlað að draga úr fordómum gegn samkynhneigðum.

Um er að ræða fyrstu skjalfestu viðurkenningu hins opinbera á sambandi samkynja pars í Japan. Konurnar sem fengu skjalið afhent eru Hiroko Masuhara, 37 ára, og Koyuki Higashi, 30 ára, en þær þurftu að staðfesta skriflega að þær væru í ástríku sambandi sem byggði á trausti.

„Ég vil að fólk viti að það er samkynhneigt fólk á meðal þess,“ segir Higashi, sem er leikkona en forsætisráðherrann Shinzo Abe hefur bent á að í stjórnarskrá landsins er hjónabandi lýst þannig að það byggi á „gagnkvæmu samþykki beggja kynja“.

Fyrr í vikunni tilkynnti tryggingafyrirtækið Lifenet Insurance að héðan í frá fengju einstaklingar í samkynja sambandi greiddar út líftryggingar maka sinna og þá hafa fjarskiptafyrirtækin NTT DoCoMo og KDDI lagt drög að því að fjölskylduafsláttur af þjónustu nái einnig til samkynja para.

Stuðningur við réttindi hinsegin fólks hefur farið vaxandi í Japan er samkvæmt skoðanakönnun dagblaðsins Mainichi Shimbun eru 44% þjóðarinnar fylgjandi samkynja hjónaböndum en 39% á móti.

Samkynja pör geta nú leigt saman íbúðir í Shibuya og samkynhneigðir hafa rétt til að heimsækja maka sinn á spítala líkt og aðrir fjölskyldumeðlimir, þótt sá réttur sé reyndar merkingarlaus fyrir dómstólum.

Ítarlega frétt um málið er að finna hjá Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert