Mótmæli og átök í Berlín

Til átaka kom á milli lögreglu og aðgerðarsinna á götum Berlínarborgar í Þýskalandi í dag. Þeir síðarnefndu fjölmenntu til að gera hróp að fólki sem kom saman til að mótmæla ákvörðun Angelu Merkel Þýskalandskanslara um að opna landamærin fyrir flóttafólki.

Rúmlega 40 voru handteknir og einn lögreglumaður hlaut minniháttar áverka, að sögn lögreglunnar. 

Það kom til handalögmála eftir að lögreglan lét til skarar skríða gegn aðgerðarsinnunum sem höfðu sest niður þar sem mótmælin stóðu yfir. Hluti aðgerðarsinnana reyndi að fara yfir girðingar sem lögreglan var búin að reisa. Lögreglan þurfti einnig að skarast í leikinn þegar það fór að hitna í kolunum í samskiptum mótmælenda og aðgerðarsinna. 

Lögreglan segir að um 5.000 manns hafi tekið þátt í mótmælum gegn innflytjendastefnu stjórnvalda. Flokkurinn Önnur leið fyrir Þýskaland, Alternative für Deutschland (AfD), skipulagði mótmælin, en flokkurinn hefur sett sig gegn evrunni og gert út á andúð á útlendingum. Mótmælendur gengu með skilti þar sem á stóð „Hælisvist hefur sín takmörk - Merkel fær rauða spjaldið“.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert