Græða grimmt á umhverfisglæpum

Ólöglegt skógarhögg í Brasilíu veldur því að meiri hætta er …
Ólöglegt skógarhögg í Brasilíu veldur því að meiri hætta er á skógareldum þar. AFP

Alþjóðleg glæpasamtök græða á tá og fingri á því að níðast á umhverfinu, þar á meðal ólöglegri skógareyðingu, smygli á villtum dýrum og losun á eitruðum úrgangi. Interpol áætlar að umhverfisglæpir séu nú fjórða stærsta tekjulind glæpamanna og þeir skili þeim á bilinu 70-213 milljörðum dollara árlega.

Aðeins fíkniefnasmygl, falsanir og mansal gefa glæpamönnum meira í aðra hendi en þrátt fyrir það telur Interpol að málaflokkurinn fái ekki nægilega mikla athygli eða fjármagn. Umhverfisglæpir eru þannig ekki á dagskrá loftslagsfundar Sameinuðu þjóðanna sem hefst 30. nóvember í París.

„Afleiðingar fíkniefnasmygls eru bersýnilegar samstundis en þetta er ekki tilfellið með umhverfisglæpi sem geta virst fjarlægt fyrirbrigði þannig að það er erfitt að gera þá að forgangsmáli. Engu að síður erum við öll fórnarlömb glæpa sem eru framdir gegn umhverfinu, jafnvel þó að þeir eigi sér stað hinum megin á plánetunni,“ segir Cees Van Dujin, verkefnastjóri umhverfisglæpadeildar Interpol við France24.

Hann telur erfitt að segja til um hvort að umhverfisglæpir séu að færast í aukana því það sé aðeins nýlega byrjað að rannsaka slík mál. Þeir séu hins vegar vafalaust að sækja á og muni verða vaxandi vandamál. Skortur sé að verða á verðmætum auðlindum eins og timbri, sjaldgæfum villtum dýrum og jarðefnaeldsneyti. Það feli í sér ábatasöm tækifæri fyrir glæpasamtök.

Þó að skipulögð glæpasamtök taki þátt í umhverfisglæpum eins og ítalska mafían í úrgangslosun þá segir Van Dujin að þeir hópar sem stundi umhverfisglæpi séu mun lausari í reipunum. Engir hópar yfirmanna gefi skipanir niður valdakeðjuna. Það geri á ýmsan hátt erfiðara að hafa hendur í hári þessara aðila.

Frétt France24 um umhverfisglæpi

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert