Ísland að stela frumkvæðinu á norðurslóðum

Jonas Gahr Störe (t.v.) með Al Gore, fv. varaforseta Bandaríkjanna, …
Jonas Gahr Störe (t.v.) með Al Gore, fv. varaforseta Bandaríkjanna, á ráðstefnu í Tromsö árið 2009. Störe óttast að Íslendingar séu að taka frumkvæðið í norðurslóðamálum af Norðmönnum.

Fyrrverandi utanríkisráðherra Noregs, Jonas Gahr Störe, óttast að Norðmenn séu að missa frumkvæðið í málefnum norðurslóða til Íslendinga. Nú sé það ráðstefnan Arctic Circle sem forseti Íslands kom á koppinn þar sem stefnan sé mótuð en ekki í Tromsö.

Á ráðstefnu í Háskólanum í Tromsö á þriðjudag lýsti Störe áhyggjum sínum af þróun mála, að því er kemur fram í frétt norska ríkisútvarpsins NRK. Forseti Frakklands, Francois Hollande, hafi mætt á þriðju Arctic Circle-ráðstefnuna sem haldin var í Reykjavík um miðjan október ásamt fleiri þjóðarleiðtogum.

„Af hverju er útgangspunktur franska forsetans þegar hann ætlar að ræða málefni norðurskautsins Reykjavík en ekki Tromsö? Dagskráin sem er sett á Íslandi ætti að vera sett af Noregi,“ sagði Störe.

Bandaríkin og Kanada hafi orðið mikilvægir aðilar að norðurslóðasamstarfi undanfarin ár. Lagði hann hins vegar áherslu á góð samskipti við Rússa. Norðmenn yrðu að halda frumkvæði sínu og vinna að því að styrkja innviði, ekki bara milli norðurs og suðurs heldur einnig milli vesturs og austurs.

Mikilvægast væri þó að fjárfesta í hafinu. Norðmenn ættu að móta stefnuna um nýrri og betri alþjóðlegar hafrannsóknir.

Frétt norska ríkisútvarpsins NRK um erindi Störe

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert