Ban Ki-moon sagður á leið til Norður-Kóreu

Ban Ki-moon er sagður á leið til Norður-Kóreu
Ban Ki-moon er sagður á leið til Norður-Kóreu AFP

Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna,  mun heimsækja Norður-Kóreu í vikunni ef marka má suður-kóreska fréttamiðillinn Yonhap. Miðillinn vitnaði í heimildarmann innan Sameinuðu þjóðanna en þau hafa neitað að tjá sig um frétt Yonhap. Ef af heimsókninni verður, er þetta fyrsta heimsókn fulltrúa Sameinuðu þjóðanna til Norður-Kóreu í rúma tvo áratugi.

Í maí aflýstu stjórnvöld í Norður-Kóreu opinberri heimsókn Ban aðeins degi áður en hann átti að koma til landsins.

Sameinuðu þjóðirnar, Evrópusambandið og Bandaríkin hafa hótað Norður-Kóreu refsiaðgerðum fyrir kjarnorkutilraunir sínar undanfarin misseri. Samkvæmt frétt Yonhap er talið líklegt að Ban muni hitta leiðtoga Norður-Kóreu, Kim Jong-un á meðan heimsókninni stendur. Engar nákvæmar dagsetningar á heimsókninni hafa þó verið tilkynntar.

Ban er frá Suður-Kóreu og var þar m.a. utanríkisráðherra. Aðeins hafa tveir aðrir framkvæmdastjórar Sameinuðu þjóðanna komið til Norður-Kóreu. Sameinuðu þjóðirnar studdu Suður-Kóreu í Kóreustríðinu sem stóð frá 1950 til 1953. Leiddi það til aðskilnaðar Norður- og Suður-Kóreu.

Frétt BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert