Veita Frökkum hernaðaraðstoð

Frönsk yfirvöld hafa kallað til starfa 115 þúsund manns til þess að sinna öryggisgæslu í landinu eftir árásirnar á föstudagskvöldið í París, að sögn innanríkisráðherra Frakklands, Bernard Cazeneuve. Óskað verður eftir því að sett verði upp öryggishlið á lestarstöðvum í Frakklandi sambærileg þeim sem eru á flugvöllum.

Cazeneuve segir að húsleit hafi verið gerð á 128 stöðum í Frakklandi í nótt en daginn áður var leitað á um 160 stöðum og 23 handteknir. Hann ýjar að því að fjárframlög til lögreglunnar verði aukin en framlög til lögreglumála hafa dregist saman um 17% á árunum 2007-2012.

Ségolène Royal, umhverfisráðherra sem fer með samgöngumál í ríkisstjórn Frakklands, hefur óskað eftir því við SNCF, franska lestarfyrirtækið, að kannað verði með uppsetningu öryggishliða á öllum lestarstöðvum í landinu. 

Í frönskum fjölmiðlum kemur fram að í Bobigny, úthverfi Parísar, hafi fundist húsnæði sem árásarmennirnir notuðu fyrir árásina. 

Varnarmálaráðherra Frakklands, Jean-Yves Le Drian, óskaði eftir því við önnur ríki ESB að þau aðstoði við hernaðaraðgerðir Frakklands erlendis og styðji við baráttuna gegn Íslamska ríkinu í Írak og Sýrlandi.

Frakkland geti ekki staðið eitt í baráttunni og skírskotaði til greinar 42-7 í sáttmála ESB sem fjallar um samstöðu ríkja ESB ef ráðist er á eitt þeirra.

Þetta er í fyrsta skipti sem ríki ESB vísar til greinarinnar sem er sambærileg grein fimm hjá Atlantshafsbandalaginu sem Bandaríkin vísuðu til eftir árásirnar 11. september 2001. 

Allir varnarmálaráðherrar ESB styðja við beiðni Drians,að sögn utanríkismálastjóra ESB, Federica Mogherini. Þetta kom fram á blaðamannafundi hans og Le Drian í Brussel í dag. Það þýðir að ESB ríkin muni veita Frökkum allan þann hernaðarstuðnings sem ríkið þarf á að halda.

Hvað er Ríki íslams eða Daesh?

Ríki íslams, eða Daesh sem er skammstöfun á heiti samtakanna á arabísku,  al-Dawla al-Islamiya fi al-Iraq wa al-Sham. Frönsk yfirvöld nota alltaf heitið Daesh og hafa gert það í meira en ár þar sem þau neita að hryðjuverkasamtökin séu ríki, stóð á bak við hryðjverkaárásirnar í París á föstudagskvöldið sem kostuðu 129 lífið.

Yfirmaður sjálfskipaðs kalífaveldis samtakanna heitir Abu Bakr al-Baghdadi en aðrir bera ábyrgð á hernaðaraðgerðum samtakanna. Innan samtakanna eru ákveðnir einstaklingar ábyrgir fyrir menntun og þjónustu á svæðum sem Ríki íslams ræður yfir.  

Aymenn al-Tamimi, sem er sérfræðingur í öfgahreyfingum íslamista, segir að þó svo að Baghdadi sé valdamikill þegar kemur að stórum ákvörðunum þá séu aðrir sem taki ákvarðanir þegar kemur að staðbundnum aðgerðum.

Ekkert hefur enn komið fram sem bendir til þess að Baghdadi eða aðrir í æðstu stöðum samtakanna hafi fyrirskipað með beinum hætti árásirnar í París og líklega eru það minni spámenn sem þar stjórnuðu aðgerðum.

Að sögn Harleen Gambhir, sérfræðings í stríðum, þá er mjög ólíklegt að Baghdadi skipuleggi allar árásir sem gerðar eru á erlendri grund í þaula heldur aðrir herforingjar sem fara að vilja hans almennt.

Varðandi árásina í París var lykilatriði að hafa menn á sínum snærum sem þekkja til í Evrópu. Því þeir eru líklegir til þess að vera í góðu sambandi við öfgamenn í heimalandinu. Samtök öfgamanna í viðkomandi landi sjá um að útvega vopnin og annan búnað sem nauðsynlegur er til þess að fremja hryðjuverk líkt og framin voru í París.

Ríki íslams fjármagnar sig einkum með olíuviðskiptum, fjárkúgunum, mannránum og sölu á stolnum fornmunum.

Árás kostar lítið fé

Matthew Levitt, sem er bandarískur sérfræðingur í greiningum á hryðjuverkasamtökum, segir að Ríki íslams sé af öðrum meiði en Al-Qaeda. Það sé einkum vegna þess að fyrrnefndu samtökin ráða yfir stórum landsvæðum og geti því leyft sér meira en Al-Qaeda. Til að mynda að skattleggja íbúa og fyrirtæki á þessum svæðum og að kúa fé úr fólki.

Hann telur að aðgerðir eins og þær í París séu fjármagnaðar sérstaklega, aðallega með glæpastarfsemi. Slíkar aðgerðir eru ekki kostnaðarsamar og sér í lagi í ljósi þess hversu kostnaðarsamt er að verjast þeim. Kostnaðurinn fer alfarið eftir því hversu margir taka þátt í árásunum sjálfum og styðja við hana. „Við erum ekki að tala um háar fjárhæðir – þessir hlutir eru ódýrir,“ segir Levitt.

Hann telur að árásirnar í París hafi kostað minna en 50 þúsund Bandaríkjadali, sem svarar til 6,6 milljóna króna.

En viðbúnaður kostar sitt

Frakkar fá heimild til þess að standa ekki við skuldbindingar sínar varðandi skuldastöðu ríkissjóðs af hálfu Evrópusambandsins vegna aukinna útgjalda í varnar- og öryggismál.

Pierre Moscovici, sem fer með efnahagsmál í framkvæmdastjórn ESB, segir að ákvæði í reglum ESB varðandi stöðugleika í ríkisfjármálum komi ekki í veg fyrir að ríki geti varið sig. 

Salah Abdeslam enn leitað

Gríðarleg leit stendur yfir að Salah Abdeslam, annar tveggja belgískra bræðra sem tóku þátt í árásunum. Bróðir hans, Brahim, lést í árásunum með sjálfsvígssprengju.

Rannsakendur telja að belgíski hryðjuverkamaðurinn Abdelhamid Abaaoud, sem býr í Sýrlandi, hafi skipulagt árásrinar en þeir Salah Abdeslam þekkjast.

Abaaoud hefur tjáð sig um skipulagningu árása í Evrópu í myndskeiðum hryðjuverkasamtakanna og í júlí var hann dæmdur í 20 ára fangelsi í Belgíu fyrir skipulagningu á morði á lögreglumönnum. 

„Við vitum ekki hvort það eru vitorðsmenn í Belgíu og í Frakklandi... við vitum ekki enn hversu margir tóku þátt í árásunum,“ segir forsætisráðherra Frakklands, Manuel Valls. 

Fimm af sjö byssumönnum og sjálfsvígsárásarmönnum hafa þegar verið nafngreindir. Fjórir þeirra eru með franskan ríkisborgararétt og tveir eru meðal þeirra hundruð Frakka sem hafa farið til Sýrlands að berjast.

Ríki íslams hefur ítrekað hvatt til árása á Frakklandi og þar hafa verið gerðar nokkrar árásir það sem af er ári. Til að mynda á ritstjórn Charlie Hebdo og í verslun gyðinga. Eins hjó maður höfuðið af yfirmanni sínum og annar var yfirbugaður í lest þegar hann hóf skothríð.

Í gær var lýst yfir neyðarástandi í Frakklandi í þrjá mánuði og Hollande forseti tilkynnti að 8.500 ný störf yrðu sköðuð í baráttunni gegn hryðjuverkum.

Samkvæmt heimildum AFP er nú rætt um að setja þá sem snúa heim frá Sýrlandi í stofufangelsi. Eins er búist við því að stjórnarskránni verði breytt svo hægt sé að beita harðari öryggisráðstöfunum.

Upplýsingar um árásirnar í París
Upplýsingar um árásirnar í París
AFP
Vopnuð lögregla í 18. hverfi Parísarborgar.
Vopnuð lögregla í 18. hverfi Parísarborgar. AFP
Mynd af Salah Abdeslam í lögreglubíl
Mynd af Salah Abdeslam í lögreglubíl AFP
Abdelhamid Abaaoud, sem er einnig þekktur sem Abu Umar al-Baljiki
Abdelhamid Abaaoud, sem er einnig þekktur sem Abu Umar al-Baljiki AFP
AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert