Grípi til allra nauðsynlegra aðgerða

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti einróma í gærkvöldi ályktun um að grípa til allra nauðsynlegra aðgerða til að berjast gegn uppgangi Ríkis íslams. Rúm vika er liðin frá hryðjuverkunum í París og Beirút.

Frakkar höfðu frumkvæði að ályktuninni sem kveður á um að öll aðildarríki Sameinuðu þjóðanna „margfaldi og samhæfi“ aðgerðir sínar til að stöðva hryðjuverkaárásir Ríkis íslams og annarra öfgahópa sem tengjast Al-Qaeda.

Francois Hollande Frakklandsforseti fagnaði niðurstöðunni og sagði að hún myndi hjálpa til við að sameina þjóðir í þeirri viðleitni sinni að stöðva Ríki íslams (Daesh).

130 létust í hryðjuverkaárásunum í París í síðustu viku og tæplega 50 í árás í Beirút. Ríki íslams lýsti ábyrgð á báðum þessum voðaverkum. 

Franski utanríkisráðherrann, Laurent Fabius, segir að þjóðir heimsins ættu nú að finna raunhæfar leiðir til að aðstoða við baráttuna, hvort sem væri með hernaðarlegum, pólitískum stuðningi eða með því að aðstoða við að stöðva fjármögnun hryðjuverkahópa.

Samþykkt Sameinuðu þjóðanna felur ekki í sér neina lögleiðingu á hernaði. Hún virkjar ekki svokallaðan kafla 7 í samþykktum stofnunarinnar, sem heimilar beitingu herafla.

Franskir embættismenn eru þó á því að hún veiti mikilvægan alþjóðlegan, pólitískan stuðning í baráttunni. 

„Þessi ályktun sýnir alþjóðlega samstöðu gegn ógninni sem skapast af Ríki íslams,“ sagði breski sendiherrann, Matthew Rycroft, sem fer fyrir öryggisráðinu þennan mánuðinn.

Í ályktunni er kallað eftir því að öll aðildarríki Sameinuðu þjóðanna sem hafa möguleika á grípi til allra nauðsynlegra aðgerða samkvæmt alþjóðlegum lögum, á svæðum sem eru undir stjórn Ríkis íslams í Sýrlandi og Írak. 

Fórnarlamba hryðjuverkanna í París er enn minnst víða um heim. …
Fórnarlamba hryðjuverkanna í París er enn minnst víða um heim. Vika er liðin frá voðaverkunum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert