Hernaðarbandalagið ESB?

Ljósmynd/Evrópuþingið

Hryðjuverkaárásirnar í París fyrir rúmri viku leiddu meðal annars til þess að François Hollande, forseti Frakklands, virkjaði  ákvæði í Lissabon-sáttmálanum, grundvallarlöggjöf Evrópusambandsins, sem skyldar ríki sambandsins til þess að veita alla þá aðstoð sem í þeirra valdi stendur verði eitt þeirra fyrir vopnaðri árás. Var það í kjölfarið samþykkt af ríkjunum á sérstökum fundi.

Formlega er Evrópusambandið ekki skilgreint sem varnarbandalag líkt og Atlantshafsbandalagið (NATO). Hins vegar er ljóst að veruleg samrunaþróun hefur átt sér stað innan þess á sviði hermála líkt og í tilfelli fjölmargra annarra málaflokka. Þannig hefur Evrópusambandið til að mynda þegar sameiginlega öryggis- og varnarstefnu og pólitískir forystumenn innan þess hafa í vaxandi mæli kallað eftir því að gengið verði skrefinu lengra og settur á laggirnar sérstakur Evrópuher.

Vaxandi áhersla á samruna í hermálum

Rekja má forsögu þessarar þróunar til Vestur-Evrópusambandsins (e. Western European Union) sem stofnað var til árið 1948 af Bretlandi, Frakklandi, Belgíu, Hollandi og Lúxemburg en síðar fengu fjölmörg önnur Evrópuríki annað hvort aðild að sambandinu eða aukaaðild. Vestur-Evrópusambandið var formlega varnarbandalag en markmið þess var einkum að aðildarríkin kæmu til aðstoðar ef ráðist væri á eitt þeirra með hliðstæðum hætti og gert er ráð fyrir í fimmtu grein stofnsáttmála NATO.

Frá síðustu aldamótum hefur áherslan á samruna innan Evrópusambandsins á sviði hermála aukist mjög samhliða því að verkefni Vestur-Evrópusambandsins voru smám saman flutt til sambandsins. Voru þau að lokum tekin að fullu yfir þegar sameiginleg öryggis- og varnarstefna sambandsins kom til sögunnar með Lissabon-sáttmálanum en stefnan er hluti af sameiginlegri stefnu þess í utanríkis- og öryggismálum. Vestur-Evrópusambandið var að lokum formlega lagt niður árið 2011.

Herráð og hersveitir undir stjórn ESB

Fyrirkomulag hermála Evrópusambandsins er líkt og fleira á vettvangi þess blanda af hefðbundnu milliríkjasamstarfi og yfirþjóðlegum stofnunum. Þannig heldur sambandið til að mynda úti sérstakri varnarmálastofnun sem heldur utan um samstarf ríkja þess í varnarmálum. Evrópusambandið hefur einnig yfir að ráða eigin herráði sem sér um skipulagningu hernaðaraðgerða á vegum sambandsins og er hluti af skrifstofu utanríkismálastjóra þess og honum til ráðgjafar. Ýmsar fleiri stofnanir tengdar varnarmálum eru starfandi á vettvangi Evrópusambandsins.

Herlið hafa um árabil starfað undir fána og merkjum Evrópusambandsins og tekið þátt í hernaðaraðgerðum á vegum þess. Meðal annars gegn sjóræningjum út af ströndum Sómalíu. Herliðið hefur yfirleitt þó verið háð ákvörðunum einstakra ríkja sambandsins um þátttöku. Ákveðin breyting varð hins vegar í þessum efnum þegar settar voru á laggirnar sérstakar hersveitir (e. EU Battlegroups) sem heyra beint undir ráðherraráð Evrópusambandið en þær tóku að fullu til starfa í byrjun árs 2007. Eftir sem áður eru þessar sveitir mannaðar af ríkjunum og varnarmál eru einn af þeim málaflokkum innan sambandsins þar sem ákvarðanir eru enn háðar einróma samþykki þeirra.

Er Evrópuher handan við hornið?

Fjölmargir forystumenn innan Evrópusambandsins hafa í gegnum tíðina kallað eftir því að sambandið fái formlega eigin her. Yfirlýsingar í þá veru hafa aukist síðustu misseri í kjölfar þess að átök brutust út í Úkraínu. Þannig kallaði Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, eftir því í mars á þessu ári að settur yrði á laggirnar slíkur her. Einkum með þeim rökum að hætta stafaði af Rússum. Hann ítrekaði þá afstöðu sína fyrr í þessari viku í kjölfar hryðjuverkaárásanna í París.

Joseph Daul, forseti þingflokksins European People's Party (EPP) á Evrópuþinginu, gekk hins vegar talsvert lengra þegar hann ræddi við blaðamenn 15. október, en þingflokkurinn er sá fjölmennasti í þinginu. Þar sagði hann að þegar væri unnið að stofnun Evrópuhers. „Við stefnum í áttina að Evrópuher mun hraðar en fólk grunar.“ Hugmyndin nýtur sömuleiðis meðal annars stuðnings Þjóðverja og hefur Angela Merkel, kanslari Þýskalands, til að mynda lýst yfir stuðningi við hana.

Frá hernaðarbandalagi til herveldis?

Færa má rök fyrir því að Evrópusambandið sé þannig í reynd þegar orðið að einhvers konar hernaðarbandalagi þó það hafi ekki verið formlega skilgreint sem slíkt. Nái hugmyndir, um að sambandið fái eigin her, fram að ganga á einhverjum tímapunkti er hins vegar ljóst að þar með hefur skrefið verið tekið frá hernaðarbandalagi til herveldis og þar með fyrirkomulags sem í dag þekkist einungis hjá ríkjum. Hugmyndir sem þó eru enn talsvert umdeildar innan Evrópusambandsins. Meðal annars hafa verið uppi áhyggjur af því að Evrópuher kunni að grafa undan NATO.

Eftir sem áður liggur fyrir að mikill og vaxandi pólitískur stuðningur hefur verið við Evrópuher innan Evrópusambandsins og hafa átökin í Úkraínu, og nú síðast hryðjuverkaárásirnar í París, aukið enn á áhersluna í þeim efnum. Orð Dauls benda ennfremur til þess að hugsanlega sé þróunin komin lengra á veg en gefið hefur verið út opinberlega. Það sama á við um nýlegar fréttir þess efnis að Merkel hafi í hyggju að kynna slík áform. Hvort þau ná endanlega fram að ganga á eftir að koma í ljós.

Federica Mogherini, utanríkismálastjóri Evrópusambandsins.
Federica Mogherini, utanríkismálastjóri Evrópusambandsins. AFP
Skjaldarmerki herráðs Evrópusambandsins.
Skjaldarmerki herráðs Evrópusambandsins. Wikipedia/Ssolbergj
Hermenn undir merkjum Evrópusambandsins draga fána sambandsins að húni við …
Hermenn undir merkjum Evrópusambandsins draga fána sambandsins að húni við Evrópuþingið í Strasbourg. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert