Alvarleg hætta vofir yfir Belgíu

Forsætisráðherra Belgíu, Charles Michel, segir að alvarleg hætta sé yfirvofandi í Belgíu og því verða allir skólar í Brussel og jarðlestarkerfi borgarinnar lokað í dag. Hæsta viðbúnaðarstig vegna hryðjuverka er í gildi í borginni. Michel óttast sambærilega árás og þá í París sem kostaði 130 lífið.

Sextán manns voru handteknir í aðgerðum lögreglu í Belgíu í gærkvöldi en ekki tókst að hafa hendur í hári Salah Abdeslam sem talinn vera einn hryðjuverkamannanna sem gerðu árásir í París fyrir rúmri viku.

Menntamálaráðherra Belgíu, Joëlle Milquet, segir ekki útilokað að skólar verði lokaðir í meira en einn dag. Þegar kemur að öryggi barna og námsmanna þá sé engin áhætta tekin. Þetta sé aðeins ein margra aðgerða sem gripið er til að vernda borgarbúa.

Fjölmargar verslanir og veitingastaðir voru lokaðir áfram í gær og afar fáir á ferli. Söfn og kvikmyndahús voru lokuð og lögregla bað fólk um að forðast fjölfarna staði og að birta ekki upplýsingar um ferðir sínar á samfélagsmiðlum.

Lögreglan gerði húsleit á 19 stöðum í Brussel í gær og þrjár í iðnaðarbænum Charleroi. Ekki var lagt hald á vopn í aðgerðum lögreglu en einn ökumaður særðist þegar lögregla skaut tveimur skotum að honum þegar hann ætlaði að keyra á lögreglu.

Bæði Atlantshafsbandalagið og Evrópusambandið, en höfuðstöðvar þessara stofnana eru í Brussel, verða með aukinn viðbúnað í dag og eru starfsmenn hvattir til þess að vinna heima í dag.

Forsætisráðherra Belgíu segir að yfirvöld óttist svipuð hryðjuverk og framin voru í París, það er ráðist verði á fólk á nokkrum stöðum líkt og af handahófi. Ógnin sé alvarleg og viðvarandi. Brussel er á hæsta viðbúnaðarstigi en viðbúnaðarstig þrjú er annars staðar í landinu sem og á flugvellinum í Brussel. Það þýðir að mögulega verði gerð árás. 

Í gær bað lögregla fólk um að birta ekki myndir af aðgerðum lögreglu á samfélagsmiðlum og gripu margir til þess ráðs að birta myndir af köttum undir myllumerkinu #BrusselsLockdown.

Innanríkisráðherra Belgíu, Jan Jambon, segir að leitin í gær hafi ekki eingöngu beinst að Abdeslam heldur nokkrum öðrum meintum hryðjuverkamönnum.

Á sama tíma segist Barack Obama, Bandaríkjaforseti, ekki vera hræddur og segir að það sé mikilvægasta vopnið í baráttunni gegn Ríki íslams, að vera ekki hræddur. Hann ítrekaði í gær að hann myndi halda fast við þá áætlun sína að taka þátt í loftslagsráðstefnunni í París í desember og hvetur önnur ríki til þess að gera hið sama.

AFP
AFP
AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert