Hefja árásir frá Charles de Gaulle

Um borð eru 26 orrustuþotur.
Um borð eru 26 orrustuþotur. AFP

Fyrstu orrustuþoturnar frá franska flugmóðurskipinu Charles de Gaulle gerðu loftárásir í Sýrlandi í dag. Skipið var sent af stað frá Frakklandi í síðustu viku en á skipinu eru 26 orrustuþotur sem þýðir að með Charles de Gaulle tvöfaldast umfang árása Frakka í Sýrlandi.

Forseti Frakklands, Francois Hollande, hét því að herða árásir Frakka á Ríki íslams í Sýrlandi og Írak eftir að hópurinn sagðist bera ábyrgð á blóðugum hryðjuverkaárásum í París fyrir 10 dögum síðan þar sem 130 létu lífið.

Í dag hitti Hollande David Cameron, forsætisráðherra Bretlands þar sem þeir ræddu stöðuna. Hann mun einnig funda með leiðtogum Bandaríkjanna, Þýskalands og Rússlands í vikunni.

„Við munum herða árásir okkar, velja skotmörk sem valda mestum skaða hjá hryðjuverkamönnunum,“ lýsti Hollande yfir. Hann og Cameron ákváðu að hefja samstarf í baráttunni gegn hryðjuverkum. Cameron bauð Hollande stuðning sinn og sagðist trúa því að Bretar ættu líka að hefja loftárásir í Sýrlandi. Fyrr í dag skoðuðu Cameron og Hollande Bataclan tónleikahöllina þar sem að minnsta kosti 89 létu lífið 13. nóvember.

Talsmaður embættis ríkissaksóknara í Brussel, greindi frá því í dag að fimm hefðu verið handteknir þar í gærkvöldi. Með þeim hefur 21 verið handtekinn síðustu daga í Belgíu vegna hryðjuverkaógnar.

En Salah Abdeslam, sem er talinn tengjast árásunum í París, er enn á flótta.

Frétt BBC.

Frá Charles de Gaulle skipinu sem er nú í austur …
Frá Charles de Gaulle skipinu sem er nú í austur Miðjarðarhafi. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert