Hvenær eiga menn í stríði?

Flækjustigið í Sýrlandsátökum er orðið nokkuð hátt: Í Sýrlandi ríkir …
Flækjustigið í Sýrlandsátökum er orðið nokkuð hátt: Í Sýrlandi ríkir borgarastyrjöld milli stjórnar Bashar al-Assad forseta og uppreisnarmanna. Rússar styðja forsetann en vestrænu ríkin undir forystu Bandaríkjanna uppreisnarmenn. Fjöldi hefur neyðst til að yfirgefa heimili sín og svokallaður flóttamannavandi ógnar nú Schengen-samstarfinu og samstöðu Evrópuríkja. Á sama tíma standa Rússar, Bandaríkjamenn og Frakkar í loftárásum gegn Ríki íslam í Sýrlandi; Rússar með beinu samþykki Assad og vestræna bandalagið með hálfgerðu þegjandi samkomulagi. AFP

Yfirlýsing Francois Hollande Frakklandsforseta um að Frakkland eigi í stríði við hryðjuverkasamtökin Ríki íslams hefur enga lagalega þýðingu, segir dósent við lagadeild Háskóla Íslands. Hann segir hins vegar vekja athygli að liðsmenn Ríkis íslams virði algjörlega að vettugi öll sjónarmið mannúðarréttar.

„Í gamla daga var það þannig að ríki lýstu gjarnan yfir stríði gegn hvort öðru þegar átök voru að brjótast út og jafnvel án þess að það hefði gerst,“ segir Pétur Dam Leifsson. „Það hafði þá þýðingu að þá virkjuðust lög í stríði; það var fyrst og fremst tilgangurinn með yfirlýsingunni. En í seinni tíð hefur alþjóðarétturinn þróast þannig að það er fyrst og fremst það sem menn gera, en ekki hvað menn segja, sem hefur þýðingu.“

Pétur segir yfirlýsingar á borð við þá sem Hollande varpaði fram í kjölfar hryðjuverkaárásanna í París 13. nóvember sl. í grunninn pólitískar, en helsta ástæða þess að þær hafi tapað eiginlegu lagalegu gildi sé sú að þjóðir hættu að vilja kannast við það að eiga í stríði við aðrar þjóðir.

„Það þótti óviðfelldið af hálfu ríkja að lýsa því yfir að þau ættu í stríði við annað ríki. Og þess vegna þróast alþjóðarétturinn með þeim hætti að þetta hættir að hafa sérstaka þýðingu og það er farið að horfa til þess hvað sé í raun og veru að gerast en ekki þess sem einhver sagði,“ segir Pétur.

Áður óþekktar aðstæður

Pétur segir svarið við því hvenær lög og samningar um stríðsrekstur virkjast því einfalt; þegar átök brjótast út og standa yfir. Hann segir þó ólíkar reglur gilda um innanríkisátök og átök milli ríkja, en hryðjuverkasamtök á borð við Ríki íslams eru að sjálfsögðu ekki ríki í formlegum skilningi þótt þau ráði yfir umtalsverðu landsvæði í Sýrlandi og Írak.

Þegar kemur að því að skilgreina um hvernig átök er þarna að ræða flækjast málin, en eðlismunur er á aðgerðum Frakka, Bandaríkjamanna og Rússa í Sýrlandi.

„Ef við tökum Rússa sem dæmi, þá eiga þeirra aðgerðir sér stað með vilyrði lögmætra stjórnvalda í Sýrlandi, þ.e. Assad-stjórnarinnar, en aðgerðir Frakka og Bandaríkjamanna eru ekki beinlínis með þeirra vilyrði; það má að minnsta kosti segja að það séu áhöld um það,“ segir Pétur.

„Bandaríkin hafa ekki beinlínis sérstakar heimildir til að gera loftárásir í Sýrlandi, þó að þeir séu að gera það og það gerir enginn sérstakar athugasemdir við það, ekki einu sinni stjórnvöld í Damaskus. Þannig að það má velta því fyrir sér hvurslags samþykki þetta sé sem þarna liggur til grundvallar; hvers konar átök.“

Pétur segir þarna í raun komnar upp áður óþekktar aðstæður og að vissu marki ríki ákveðin lögleysa hvað þetta varðar.

Virða mannúðarrétt að vettugi

Í hvorn flokkinn sem átökin falla; innanríkisátök eða átök milli ríkja, þá segir Pétur ákveðnar lágmarksreglur gilda um öll vopnuð átök. Þar vísar hann í þriðju grein allra Genfarsáttmálanna og mannúðarrétt.

Hann segir virðingarleysi Ríkis íslams fyrir mannúðarsjónarmiðum allt að því fordæmalaust.

„Gagnaðilinn í átökunum, þ.e. ISIS; þeir virða alls ekki Genfarsáttmálana á nokkurn hátt, sem gerir þá afskaplega sérstaka hreyfingu frá sjónarhóli laga í stríði. Vegna þess að ef þú skoðar vopnuð átök í gegnum tíðina þá hafa yfirleitt allar hreyfingar sagt „við virðum mannúðarrétt“, hvort sem þær gera það eða ekki. Þessi hreyfing gefur ekkert fyrir mannúðarrétt að því er virðist,“ segir Pétur.

Hann segir óheyrt að hreyfingar séu að taka stríðsfanga af lífi án dóms og laga.

„Það myndast þarna á 18. öld þessi regla um að virða líf og limi stríðsfanga og sú regla mótast í skjóli þess að ríki, og við vorum að tala um ríki í þessu samhengi í gamla daga; að ríki sáu sér gagn og hag í því að koma vel fram við stríðsfanga hvert annars. En þessi hreyfing virðir hvorki rétt almennra borgara né stríðsfanga.“

Pétur segir þetta afar sérstakt í sögulegu samhengi og að persónulega hafi sér fundist alþjóðasamfélagið lítið láta til sín taka fram að þessu. „Ef við horfum bara á Sameinuðu þjóðirnar þá eru þær fyrst núna að taka almennilega við sér. Kannski hefðu þær átt að vera að gera það sem þær eru að gera núna fyrir tveimur árum.“

Í kjölfar hryðjuverkaárásanna í París 13. nóvember sl. sagði Francois …
Í kjölfar hryðjuverkaárásanna í París 13. nóvember sl. sagði Francois Hollande Frakklandsforseti að Frakkland ætti í stríði við Ríki íslam. Síðan þá hefur hann freistað þess að telja aðra leitoga á að herða aðgerðir gegn samtökunum. AFP
Samkvæmt varnarmálaráðuneyti Rússlands sýnir þessi mynd eftirleik sprengjuárásar á bækistöðvar …
Samkvæmt varnarmálaráðuneyti Rússlands sýnir þessi mynd eftirleik sprengjuárásar á bækistöðvar Ríkis íslam í Deir Ezzor í Sýrlandi. Aðgerðir Rússa njóta blessunar Sýrlandsforseta, Bashar al-Assad. AFP
Franskir sjóliðar undirbúa flugskeyti um borð í flugmóðurskipinu Charles de …
Franskir sjóliðar undirbúa flugskeyti um borð í flugmóðurskipinu Charles de Gaulle á Miðjarðarhafi. Skipið verður bækistöð franskra herþota í aðgerðum gegn Ríki íslam í Sýrlandi. AFP
Hryðjuverkasamtökin Ríki íslam hafa virt mannúðarsjónarmið að vettugi og hafa …
Hryðjuverkasamtökin Ríki íslam hafa virt mannúðarsjónarmið að vettugi og hafa sömuleiðis sýnt fullkomið virðingarleysi fyrir menningarminjum á borð við hina fornu borg Palmyra, þar sem liðsmenn samtakanna hafa valdið óafturkræfri eyðilegginu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert