„Mér líður ágætlega“

Frá aðgerðum lögreglu í Boliden 19. nóvember sl.
Frá aðgerðum lögreglu í Boliden 19. nóvember sl. AFP

Rúmlega tvítugur maður sem var handtekinn af lögreglu grunaður um að áforma hryðjuverk í Svíþjóð er laus allra mála því í ljós hefur komið að hann er saklaus Íraki á flótta. „Mér líður ágætlega,“ segir hann og vill fá að snúa aftur í athvarf fyrir flóttafólk í Boliden þar sem hann var handtekinn í síðustu viku.

Moder Mothanna Magid var látinn laus án ákæru og hreinsaður af öllum grun um tengsl við hryðjuverkastarfsemi í gær, þremur dögum eftir að öryggislögreglan, Säpo, handtók hann í áhlaupi í húsi þar sem flóttamenn búa í Norður-Svíþjóð.

Líkt og fram kom á mbl.is í gær er maðurinn, sem er 22 ára gamall, ekki grunaður um glæpsamlegt athæfi af nokkru tagi.

Tveimur tímum síðar hringdi hann í félaga sína í Boliden og sagði að sér liði ágætlega, samkvæmt frétt Aftonbladet.

Samfélagsmiðlar og þjóðfélagsrýnar hafa gagnrýnt Säpo harðlega fyrir það hvernig staðið var að málum gagnvart Magid enda birtar myndir af honum í fjölmiðlum, hann nafngreindur og svo mætti lengi telja.

Talsmaður Säpo, Fredrik Milder, segir að lögreglan muni veita honum alla þá aðstoð sem möguleg er enda verði lögreglan að taka ábyrgð á því líkt og alltaf þegar fólk er hrifsað á brott úr sínu daglega lífi í stöðu sem þessa sem kom upp í síðustu viku. Að sögn saksóknara var brugðist við upplýsingum sem beindust gegn honum og einnig að um mjög skýrar upplýsingar hefði verið að ræða. Það hefði ekki verið lögreglan sem nafngreindi hann eða birti myndir af honum heldur fjölmiðlar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert