Óumflýjanlegt að setja efri mörk

Schuster segir ekki hægt að horfa framhjá því að flóttafólkið …
Schuster segir ekki hægt að horfa framhjá því að flóttafólkið komi úr samfélagi þar sem gyðingahatur og umburðarleysi séu samofin menningunni. AFP

Regnhlífasamtök gyðinga í Þýskalandi, Zentralrat der Juden in Deutschland, hafa kallað eftir því að hömlur verði settar á straum flóttamanna til landsins og vísa til erfiðleika við aðlögun komufólksins, sem flest er múslimar.

Ríkisstjórn Angelu Merkel kanslara hefur opnað dyrnar fyrir flóttafólki sem hefur flúið átökin í Sýrlandi og áætlanir gera ráð fyrir að yfir milljón manns muni sækja um hæli í landinu á þessu ári.

„Fyrr eða síðar neyðumst við til að setja einhver efri mörk,“ sagði Josef Schuster, forseti ráðsins, í samtali við dagblaðið Die Welt.

„Margir flóttamannanna hafa flúið skelfingar Ríkis íslam og vilja búa við frið og frelsi, en á sama tíma koma þeir úr samfélagi þar sem hatur á gyðingum og umburðarleysi er samofið  menningunni.“

Schuster sagði að þar væru ekki aðeins undir hagsmunir gyðinga, heldur einnig jafnrétti kynjanna og réttindi samkynhneigðra.

Samtök gyðinga í Austurríki (IKG) hafa tekið undir áhyggjur þýska ráðsins og segja að þolmörkum sé náð. Forseti samtakanna, Oskar Deautsch, hefur varað við hættunni á auknum fordómum gegn gyðingum.

Í Austurríki gera menn ráð fyrir því að hælisumsóknir verði 95 þúsund á þessu ári og allt að 130 þúsund árið 2016.

Þýsku hagsmunasamtökin Pro Asyl hafa hins vegar gagnrýnt ummæli Schuster og segja miður að ráðið deili afstöðu öfgaþjóðernissinna. Leiðtogi samtakanna, Guenter Burkhardt, sagði truflandi að báðir aðilar væru í raun að fara fram á að víkja Mannréttindasáttmála Evrópu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert