Hafnar beiðni franskra yfirvalda

Frá Delhi. Myndin er úr safni og tengist fréttinni ekki …
Frá Delhi. Myndin er úr safni og tengist fréttinni ekki beint. AFP

Hæstiréttur Indlands hefur hafnað beiðni franskra yfirvalda um að franskri konu, sem er eftirlýst í Chile vegna morðs á lykilstuðningsmanni herstjórnar Augusto Pinochet, verði sleppt úr haldi.

Chile hefur farið fram á að hin 56 ára Marie-Emmanuelle Verhoeven verði framseld vegna meintrar aðildar hennar að samsæri um að morðið á þingmanninum Jamie Guzman Errazuris 1. apríl 1991.

Verhoeven var handtekinn í Indlandi 16. febrúar sl. við komuna til landsins frá Nepal og hefur verið haldið í hinu alræmda Tihar-fangelsi í Delhi.

Franska sendiráðið hét því fyrir dómi að tryggja að Verhoeven yfirgæfi ekki Indland ef hún yrði færð undir eftirlit sendiráðsins fram að fyrirtöku framsalsbeiðni Chile. Hæstiréttur hafnaði hins vegar bóninni, á þeirri forsendu að vafasamt væri að sendiráðið gæti staðið við loforðið.

„Konan franska er sökuð um hryðjuverkastarfsemi, morð og aðild sína að félagsskap sem myrti þingmann,“ sagði dómarinn T.S. Thakur. „Hvað hyggst franska stjórnin gera ef hún flýr þrátt fyrir loforð þeirra? Við munum ekki fallast á neina tímabundna tilhögun.“

Lögmenn Verhoeven segja handtöku hennar og fangelsun ólögmæta og að henni ætti umsvifalaust að vera leyft að fara. Hæstiréttur mun næst fjalla um mál hennar 8. desember nk.

Konan var handtekin á grundvelli handtökuskipunar á vegum Interpol sem gefin var út að beiðni yfirvalda í Chile. Eftir að hún hafði verið handtekin dró Interpol skipunina hins vegar til baka.

Hæstiréttur Delhi úrskurðaði í september sl. að sleppa hætti Verhoeven þar sem framsalsbeiðni Chile væri ólögmæt, en hún var handtekin á ný í fangelsinu.

Verhoeven, sem er frá Nantes í vesturhluta Frakklands, var handtekin í Hamburg í Þýskalandi í janúar 2014 og haldið í fjóra mánuði. Þýskaland hafnaði hins vegar framsalsbeiðni Chile, sem lögmenn konunnar í Indlandi hafa bent á.

Á árunum 1985-1995 bjó Verhoeven í Chile og barðist fyrir mannréttindum. Hún fluttist síðan aftur til Frakklands. Hún segir um að ræða pólítískar hefndaraðgerðir gegn sér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert