Hermaður drepinn við björgun

Vla­dimir Pútín, for­seti Rúss­lands.
Vla­dimir Pútín, for­seti Rúss­lands. AFP

Rússneskur hermaður týndi lífi í misheppnaðri tilraun til þess að bjarga flugmönnunum tveimur sem neyddust til þess að skjóta sér út úr flugvél sinni eftir að tyrknesk orrustuþota skaut vél þeirra niður fyrr í dag.

Fréttaveita AFP greinir frá því að hinn látni hafi tekið þátt í björgunarleiðangri og var hann um borð í annarri af þeim tveimur Mi-8 herþyrlum sem sendar voru af stað. 

„Á meðan aðgerðin stóð yfir skemmdist önnur þyrlan vegna skotárásar af jörðu niðri og neyddust flugmennirnir til að lenda henni. Einn hermaður lést,“ hefur AFP eftir Sergei Rudskoi hershöfðingja í rússneska hernum. 

Vla­dimir Pútín, for­seti Rúss­lands, hefur líkt árás Tyrkja á rúss­neska herþotu við rýt­ings­stungu í bakið.

Óljósar upplýsingar hafa borist um afdrif flugmannanna sem um borð voru í rússnesku orrustuþotunni, en annar þeirra er sagður hafa verið skotinn til bana í fallhlíf sinni. Hinn maðurinn er talinn vera á lífi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert