Hryðjuverk í Bosníu

Sprengja sem sprakk á lögreglustöð í Bosníu í morgun er jafnvel hryðjuverk, segir saksóknari sem vinnur að rannsókninni. Fyrir nokkrum dögum voru tveir hermenn skotnir til bana af sjálfsvígsárásarmanni í Bosníu.

Ekki er vitað hver var að verki í nótt en sprengju var kastað á þak lögreglustöðvarinnar í bænum Zavidovici í nótt. Enginn slasaðist þegar sprengjan sprakk og tjón er lítið, segir talskona lögreglunnar, Aldina Ahmic.

Málið er komið á borð ríkissaksóknara og vinnur sérsveit að rannsókn þess. 18. nóvember skaut maður vopnaður sjálfvirkum riffli tvo hermenn og sprengdi sig upp, skammt frá Sarajeveo. Talið var að maðurinn væri með tengsl við hryðjuverkamenn og fullvíst væri að um hryðjuverk væri að ræða.

Um 40% íbúa Bosníu eru múslímar en alls búa 3,8 milljónir í landinu. Langflestir þeirra eru afar friðsamir en mjög fámennur hópur er fylgjandi Wahabítum.

Wahabítar, íslamskur strangtrúarflokkur súnníta, eru áhrifamiklir í Sádi-Arabíu og leiðtogar Ríkis íslams, samtaka íslamista, hafa einnig hampað kenningum þeirra í skólum á yfirráðasvæðum samtakanna. Refsilöggjöfin í Sádi-Arabíu er lík túlkun Ríkis íslams á íslömskum lögum, þótt grimmdin sé minni í konungsríkinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert